Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Fréttir

Íbúar Suðurnesja sitji við sama borð og aðrir landsmenn
Reykjanesbær er fjórða stærsta sveitarfélag landsins.
Fimmtudagur 28. mars 2019 kl. 15:00

Íbúar Suðurnesja sitji við sama borð og aðrir landsmenn

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar fagnar framkominni tillögu til þingsályktunar um stöðu sveitafélagana á Suðurnesjum og vonar að hún nái fram að ganga. Þetta kemur fram í tillögu sem samþykkt var samhljóða á fundi bæjarstjórnar í liðinni viku.

„Eins og fram kemur í tillögunni er staða Suðurnesja um margt sérstök og miklar sveiflur verið í atvinnulífi. Íbúafjölgun síðustu ár hefur verið fordæmalaus með tilheyrandi álagi á félagslega innviði, ekki síst þá sem eru á forræði ríkisins s.s. heilbrigðisþjónustu, löggæslu, framhaldsskóla, vegakerfi o.fl.

Public deli
Public deli

Fulltrúar sveitarfélaganna ásamt forsvarsmönnum helstu ríkisstofnanna á Suðurnesjum hafa fundað með þingmönnum, ráðherrum, ráðuneytisstjórum og öðrum fulltrúum ríkisins og vakið athygli á þeim margvíslegu áskorunum sem opinberar stofnanir, bæði ríkis og sveitarfélaga, standa frammi fyrir. Málflutningur Suðurnesjamanna hefur fengið góðar undirtektir en efndir og viðbrögð látið á sér standa. Á meðan hefur íbúum fjölgað enn frekar og staðan versnað.

Furðu sætir að þrátt fyrir að gerðar hafi verið breytingar á úthlutun úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga með tilliti til vaxtarsvæða hefur dregið úr fjárveitingum til ríkisstofnanna á svæðinu á sama tíma. Bæjarstjórn Reykjanesbæjar vill einnig benda á að tillagan er í megindráttum í samræmi við verkefnismarkmið um vaxtarsvæði núgildandi byggðaáætlunar og þegar hefur verið samþykkt á Alþingi. Því ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að hefja vinnu sem miðar að því að gera ríki og sveitarfélög færari um að bregðast við þenslu á vaxtarsvæðum án tafar.

Íbúar á Suðurnesjum fara fram á að sitja við sama borð og aðrir landsmenn enda eiga nýir íbúar sama tilkall og rétt til opinberrar þjónustu óháð fyrri búsetustað. Sveitarfélögin á Suðurnesjum hafa lagt sig fram um að sinna þeim skyldum og verkefnum sem þeim ber, með tilheyrandi uppbyggingu félagslegra innviða, og gera þá kröfu að ríkið geri slíkt hið sama,“ segir orðrétt í tillögunni sem var samþykkt samhljóða eins og fyrr greinir.