Reykjanes Optikk
Reykjanes Optikk

Fréttir

Hraunið 144.000 fermetrar
VF-mynd: Ingibergur Þór Jónasson
Fimmtudagur 4. ágúst 2022 kl. 18:54

Hraunið 144.000 fermetrar

Eldgos hófst í Meradölum, á um 300 m langri sprungu sem liggur í NNA upp í hlíðar vestasta Meradalahnjúksins 3. ágúst um kl. 13:20.  Sprungan er um það bil einn kílómetra norðaustur af megingígnum sem var virkur í gosinu í fyrra, en það stóð frá mars fram til loka september á síðasta ári.  Staðsetningin fellur vel að því að gossprungan liggi yfir suðurenda gangsins sem myndaðist í jarðskorpunni dagana fyrir gosið. 

Mælingar á hraunflæði

Að mælingum á rúmmáli hraunsins koma sérfræðingar hjá Landmælingum Íslands, Náttúrufræðistofnun og Jarðvísindastofnun í samvinnu við Almannavarnir og Veðurstofuna.  Fyrsta mælingin var gerð í gær (kl. 17:05) og síðan  endurtekin í dag kl. 11.  Teknar eru loftmyndir með Hasselblad myndvél Náttúrufræðistofnunar úr flugvél Fisfélags Reykjavíkur, TF-204. Gerð hafa verið landlíkön eftir þessum mælingum og þau borin saman við mælinguna sem gerð var í gær, kl. 17:05.

Hraunið mældist um 144.000 m2 (0,144 km2), meðalþykktin 11,1 metri og rúmmálið 1,60 millj. rúmmetrar kl. 11 í morgun (4. ágúst). 

Meðal hraunflæði milli kl. 17 í gær og til kl. 11 í morgun er 18 m3/s.  Rennslið hefur því minnkað töluvert frá því sem það var fyrstu klukkutímana (32 m3/s).  Þessi hegðun er mjög lík því sem yfirleitt er í gosum hér á landi; að gosið sé kröftugt fyrst og síðan dragi úr.  Óljóst er hvort þessi þróun heldur áfram en reynt verður að mæla aftur á morgun, ef skyggni leyfir.

Um kortlagningu hraunsins:

Reiknað er með að eftirfarandi tvær aðferðir verði einkum notaðar við að kortleggja hraunið:

  1. Myndir teknar lóðrétt niður á hraunið og síðan unnið landlíkan úr myndunum.
  2. Mælingar úr Pléiades gervitungli frönsku geimvísindastofnunarinnar.  Tunglið fer yfir a.m.k. einu sinni á dag en nær ekki myndum ef skýjahula þekur svæðið.

Rúmmál hraunins er fengið með því að draga eitt landlíkan frá öðru. Mælingar eru festar við nýleg nákvæm landlíkön sem unnið hefur verið af öllu landinu.  Nákvæmni landlíkana er talin vera 20-30 cm í hæð. 

Vinna við mælingar og úrvinnslu

Kortlagning hraunsins er samstarfsverkefni margra aðila:  Hér á landi eru það aðallega Jarðvísindastofnun Háskólans, Náttúrfræðistofnun Íslands og Landmælingar Íslands.  Einnig koma að verkinu Veðurstofan, Ísavia og Almannavarnir.  Loftmyndir er teknar úr flugvél Garðaflugs eða flugvél Fisfélags Reykjavíkur.  Franskt samstarfsfólk kemur líka að málinu því aðgangur að Pléiades gervitunglinu hefur fengist gegnum CIEST2, franskt rannsóknaverkefni.   

Jarðefnafræðin er einkum unnin á Jarðvísindastofnun Háskólans.  Að gasmælingum koma sérfræðingar Veðurstofunnar og fólk á Jarðvísindastofnun.   

Að vinnunni kemur því allstór hópur sérfræðinga á ofangreindum stofnunum, tæknifólk á tilraunastofum og nýdoktorar við Jarðvísindastofnun. 

Texti og myndir af vef Jarðvísindastofnunar HÍ // Magnús Tumi Guðmundsson, Joaquin Belart, Þórdís Högnadóttir