Fréttir

Hlaut Menntaverðlaun HÍ eftir þrjú ár á Íslandi
Sólborg Guðbrandsdóttir
Sólborg Guðbrandsdóttir skrifar
sunnudaginn 4. júlí 2021 kl. 07:44

Hlaut Menntaverðlaun HÍ eftir þrjú ár á Íslandi

Valeria Drumea var ein af tuttugu og fjórum nemendum úr jafnmörgum framhaldsskólum á Íslandi sem hlaut Menntaverðlaun Háskóla Íslands á dögunum. Valeria brautskráðist frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja nú í vor með meðaleinkunina 9,1 af fjölgreinabraut. Sá árangur er ekki síður glæsilegur í ljósi þess að Valeria er frá Moldavíu og hefur verið búsett á Íslandi í einungis þrjú ár.

Hún segir verðlaunin hafa komið sér á óvart en að sama skapi sé hún afar þakklát fyrir þau. „Þetta er mér mjög mikilvægt. Ég lagði mig alla fram við að læra allt saman á íslensku til að fá góðar einkunnir og eiga þannig möguleika á því að fara í háskóla og halda áfram með námið mitt. Þetta sýnir það að bakgrunnurinn skiptir ekki máli, heldur er það námsárangurinn,“ segir hún.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Aðspurð hvernig henni hafi tekist að læra íslensku svona hratt segist hún hafa fengið mikla aðstoð frá fólkinu í kringum sig. „Ég vildi gera þetta eins hratt og hægt væri svo ég skildi það sem ég væri að læra. Ég fékk kennarann og blakliðsfélaga minn, Jóhönnu Kristínu Hauksdóttur, til að aðstoða mig. Hún hjálpaði mér mjög mikið með því að tala við mig á íslensku, kenna mér málfræði og hjálpa mér með verkefni sem ég fékk í skólanum. Svo hjálpuðu vinir mínir, blakliðið og skólinn mér helling. Ég hefði ekki lært íslenskuna svona hratt án þeirra og er þeim mjög þakklát.“

Fyrir utan blakið hefur Valeria áhuga á teikningu og stærðfræði en meðal annars lagði hún stund á bókhald, reikningshald og endurskoðun við fjölbrautaskólann. „Þegar ég byrjaði í FS þá tók ég stærðfræði 403 á annarri önn. Mér fannst það mjög gaman og var með besta stærðfræðikennara í heiminum,“ segir Valeria og á þá við Gunnlaug Sigurðsson, stærðfræðikennara við FS. „Tímarnir hans voru mjög áhugaverðir og hann hjálpaði mér mjög mikið þegar ég skildi ekki dæmin. Þess vegna ákvað ég að klára alla megin stærðfræðiáfangana sem gekk mjög vel,“ segir hún en Valeria lauk stærðfræðiáfanga 703.

Markmið Menntaverðlauna Háskóla Íslands er að vekja athygli á nemendum sem hafa náð framúrskarandi árangri í námi til stúdentsprófs, auk þess að hafa náð eftirtektarverðum árangri á sviði lista eða íþrótta, sýnt þrautseigju við erfiðar aðstæður eða átt mikilvægt framlag til skólans. Verðlaunin voru gjafabréf fyrir bókakaupum, viðurkenningarskjal frá Háskóla Íslands og styrkur sem nemur upphæð skrásetningargjalds fyrsta skólaárið í Háskóla Íslands, kjósi verðlaunahafinn að hefja nám þar. Valeria stefnir á nám í viðskiptafræði við Háskóla Íslands í haust en umsókn hennar hefur nú þegar verið samþykkt.