Max Norhern Light
Max Norhern Light

Fréttir

Hér eru markaðir fullir af fólki á hverjum degi
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 12. mars 2020 kl. 14:53

Hér eru markaðir fullir af fólki á hverjum degi

– segir Keflavíkurmærin Brynja Lind Sævarsdóttir en hún rekur hótel í Alpahéraði í Frakklandi sem er á áhættusvæði Covid19.

„Ég þarf greinilega að skoða heimferð mína til Íslands í ljósi nýjustu frétta. Miðað við þær þarf ég að fara í sóttkví verandi á svæði sem íslensk yfirvöld hafa skilgreint sem áhættusvæði. Veiran hefur ekki haft eins mikil áhrif hér. Markaðir eru fullir af fólki á hverjum morgni og lífið gengur að mestu leyti sinn vanagang,“ segir Keflavíkurmærin Brynja Lind Sævarsdóttir, hóteleigandi í franska bænum Riom sem er innan svæðis frönsku Alpanna og er um 400 km frá París.

Brynja segir að umræðan um COVID-19 sé meiri í stórborginni París og búið sé að fresta stórum sýningum, t.d. í Clermont-Ferrand sem er aðeins í um tuttugu mínútna fjarlægð frá henni. Þá sé búið að loka skólum og fleiri stofnunum í L’oise héraðinu nærri París en ekki á hennar svæði.

„Ég hef ekki fengið nema örfáar afbókanir. Um síðustu helgi var t.d. hlaupakeppni hérna í nágrenninu og þá voru um 20% afbókanir en keppnin fór fram. Þessi vika hjá mér er fullbókuð og næsta er að fyllast sem og páskarnir. Ég á bókað heim til Íslands í heimsókn í apríl og þarf að skoða það betur ef ég þarf að fara í tveggja vikna sóttkví,“ sagði Brynja Lind.

Hotel du Square í Frakklandi.