Fréttir

Heilbrigði hafna á Suðurnesjum
Arsen mældist tiltölulega hátt í öllum sýnum, sérstaklega í Grindavíkurhöfn en þar má vænta áhrifa á viðkvæmt lífríki. Þar mældist einnig hæstur styrkur kvikasilfurs sem ásamt blýi eru með skaðlegustu efnunum sem mæld voru.
Föstudagur 26. mars 2021 kl. 06:35

Heilbrigði hafna á Suðurnesjum

Mengunarálag af völdum snefilefna er tiltölulega lítið í höfnum á Suðurnesjum og þar má finna ýmsar sjaldgæfar sjávarlífverur. Þetta kom fram í úttekt sem gerð var á heilbrigði hafna á Suðurnesjum sumarið og haustið 2020 þar sem skoðuð var efnamengun og nýjar tegundir sjávarlífvera í höfnum í Keflavík, Njarðvík, Grindavík og Sandgerði.

Verkefnið var unnið af náttúrustofu Suðvesturlands í samstarfi við Rannsóknarsetur HÍ á Suðurnesjum og Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja. Uppbyggingarsjóður Suðurnesja styrkti verkefnið um tvær milljónir króna en verkefnastjóri var Sindri Gíslason. Úttekt var gerð á lífríki hafnanna með það að markmiði að skrásetja algengustu tegundir og meta stöðuna með tilliti til framandi tegunda. Jafnframt voru gerðar mengunarmælingar á PAH efni úr olíu og frá bruna á eldsneyti, þungmálmum og snefilefnum þar sem kræklingur var notaður sem vísitegund.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Mest reyndist mengunarálag vera í nágrenni við slippinn í Njarðvík en þó er staðan talin vera nokkuð góð með tilliti til mengandi efna í þeim höfnum sem voru skoðaðar. Þó mældist arsen tiltölulega hátt í öllum sýnum, sérstaklega í Grindavíkurhöfn en þar má vænta áhrifa á viðkvæmt lífríki. Þar mældist einnig hæstur styrkur kvikasilfurs sem ásamt blýi eru með skaðlegustu efnunum sem mæld voru. Blý reyndist í hæstum styrk í kræklingi í fjöru við slippinn í Njarðvík og þar var mengunarálag PAH efna mest.

Að auki voru kannaðar botnlægar framandi lífverur í höfnunum en alls fundust átta tegundir framandi sjávarlífvera í rannsókninni. Áhugavert þótti að sjá hversu algengar tegundirnar voru en sjö fundust í Sandgerði og sex í Keflavík og Grindavík. Njarðvík skar sig þar úr en þar fundust einungis tvær tegundir. Engin möttuldýr fundust í Njarðvík en sá munur er á hafnarsvæðunum að þar eru engar flotbryggjur fyrir hendi. Griphvelja fannst í miklum fjölda í Sandgerði. Eitt eintak fannst við slippinn í Njarðvík og er það í fyrsta sinn sem tegundin finnst á því svæði.

Ein ný framandi tegund fannst við landið og ber hún nafnið roðamöttull og fannst hún í Grindavík. Var þéttleiki hans á flotbryggjum í Grindavík mikill.

Niðurstöður verkefnisins þykja gefa skýr skilaboð um að vakta þurfi hafnir með reglubundnum hætti bæði m.t.t. efnamengunar og framandi tegunda. Aldrei hefur verið farið í rannsókn á Íslandi sem tekur til ástands hafna með jafn heildstæðum hætti bæði m.t.t. efnamengunar og framandi tegunda. Verkefnið þykir stórt framfaraskref þar sem sveitarfélög á Suðurnesjum eru öðrum sveitarfélögum á landinu til fyrirmyndar.