Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Fréttir

Hafdís Hulda dúx á haustönn 2019
Verðlaunahafar við útskrift haustannar 2019. VF-myndir/OddgeirKarlsson.
Laugardagur 28. desember 2019 kl. 11:46

Hafdís Hulda dúx á haustönn 2019

Hafdís Hulda Garðarsdóttir var dúx á haustönn Fjölbrautaskóla Suðurnesja en skólaslit og brautskráning FS fór fram föstudaginn 20. desember. Að þessu sinni útskrifuðust 59 nemendur; 46 stúdentar, 14 úr verknámi, sex úr starfsnámi og einn af framhaldsskólabraut starfsbraut. Þess má geta að sumir luku prófi af fleiri en einni braut. Karlar voru 31 og konur 28. Alls komu 37 úr Reykjanesbæ, 12 úr Grindavík, níu úr Suðurnesjabæ og einn frá Eskifirði.

Dagskráin var með hefðbundnu sniði. Kristján Ásmundsson skólameistari afhenti prófskírteini og flutti ávarp og Guðlaug Pálsdóttir aðstoðarskólameistari flutti yfirlit yfir störf annarinnar. Víglundur Guðmundsson nýstúdent flutti ávarp fyrir hönd brautskráðra og Bogi Ragnarsson kennari flutti útskriftarnemendum kveðjuræðu starfsfólks. Að venju fluttu nemendur skólans tónlist við athöfnina en Styrmir Pálsson lék á fiðlu og Arnar Geir Halldórsson á selló og síðan lék Haukur Arnórsson nýstúdent á píanó.

Public deli
Public deli

Við athöfnina voru veittar viðurkenningar fyrir góðan námsárangur. Anton Halldórsson fékk viðurkenningu fyrir góðan árangur í viðskiptagreinum, Ína Ösp Úlfarsdóttir fyrir félagsfræði, Kristín M. Ingibjargardóttir fyrir textílfræði, Helena Bergsveinsdóttir fyrir húsasmíði og Sigrún Birta Eckard fyrir árangur sinn í listasögu. Helgi Líndal Elíasson fyrir viðurkenningu fyrir góðan árangur fata- og textílgreinum og verðlaun frá Landsbankanum fyrir lokaverkefni í fata- og textílgreinum. Rakel Ýr Ottósdóttir fékk viðurkenningar fyrir góðan árangur í ensku og spænsku og verðlaun frá Verkfræðistofu Suðurnesja fyrir góðan árangur í stærðfræði. Katla Marín Þormarsdóttir fékk viðurkenningu frá skólanum fyrir spænsku, verðlaun frá danska sendiráðinu fyrir árangur sinn í dönsku og frá Landsbankanum fyrir góðan árangur í erlendum tungumálum. Elvar Jósefsson féll viðurkenningar fyrir góðan árangur í rafmagnsfræði og vélstjórnargreinum og hann fékk einnig verðlaun frá Isavia fyrir góðan árangur í verknámi og gjöf frá Landsbankanum fyrir góðan árangur í verknámi. Hafdís Hulda Garðarsdóttir fékk viðurkenningar frá skólanum fyrir góðan árangur í efnafræði, stærðfræði og líffræði, hún fékk verðlaun frá Íslenska stærðfræðifélaginu fyrir árangur sinn í stærðfræði, viðurkenningu frá þýska sendiráðinu fyrir góðan árangur í þýsku, gjöf frá Þekkingarsetri Suðurnesja fyrir árangur sinn í náttúrufræðigreinum og viðurkenningu frá Landsbankanum fyrir góðan árangur í stærðfræði og raungreinum

Kristján Ásmundsson skólameistari afhenti Hafdísi einnig 100.000 kr. námsstyrk úr skólasjóði en hann er veittur þeim nemanda sem er með hæstu meðaleinkunn við útskrift. Hafdís hlaut einnig 30.000 kr. styrk frá Landsbankanum fyrir hæstu einkunn á stúdentsprófi.

Ragnheiður Gunnarsdóttir afhenti við athöfnina styrki úr styrktarsjóði Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Sjóðurinn var stofnaður af Kaupfélagi Suðurnesja og Gunnari Sveinssyni, fyrrverandi kaupfélagsstjóra og fyrsta formanni skólanefndar Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Tilgangur sjóðsins er að efla og auka veg skólans með því að styrkja nemendur skólans til náms, að styðja við starfsemi sem eflir og styrkir félagsþroska nemenda og að veita útskriftarnemendum viðurkenningar fyrir frábæran árangur í námi og starfi. Þær Alma Rut Einarsdóttir, Herdís Birta Sölvadóttir og Martyna Daria Kryszewska fengu allar 25.000 kr. styrk fyrir góða frammistöðu í tjáningu og ræðumennsku.

Undir lok athafnarinnar veitti skólameistari Kacper Zuromski silfurmerki Fjölbrautaskóla Suðurnesja en hann sigraði í forritun á Íslandsmóti iðn- og verkgreina fyrr á árinu.