HMS
HMS

Fréttir

Háaleitisskóli á Ásbrú orðinn Réttindaskóli UNICEF
Frá afhendingu viðurkenningarinnar í gær. VF-myndir: Hilmar Bragi
Föstudagur 19. nóvember 2021 kl. 09:36

Háaleitisskóli á Ásbrú orðinn Réttindaskóli UNICEF

Háaleitisskóli á Ásbrú í Reykjanesbæ hlaut í gær viðurkenningu sem Réttindaskóli UNICEF. Snælandsskóli í Kópavogi hlaut sömu viðurkenningu. Þá hlýtur Laugalækjarskóli í Reykjavík sömuleiðis endurmatsviðurkenningu, sem veitt er Réttindaskólum sem uppfyllt hafa kröfur verkefnisins þremur árum frá því að hafa hlotið Réttindaskólaviðurkenningu.

Réttindaskólaverkefnið snýst um að byggja upp lýðræðislegt umhverfi með því að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðina í allt starf og ákvarðanir í skóla- og frístundastarfi. Markmiðið er að rækta með markvissum hætti þekkingu, leikni og viðhorf sem hjálpa börnum að verða gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í nútímasamfélagi.

Bílaverkstæði Þóris
Bílaverkstæði Þóris

Mikilvægt að öll börn þekki sinn rétt

Háaleitisskóli er fyrsti skólinn á Suðurnesjunum til að hljóta viðurkenningu UNICEF og hefur skólinn unnið að þessum áfanga síðustu tvö ár með fjölbreyttum verkefnum og markvissri vinnu þar sem réttindi barna eru höfð í fyrirrúmi. Barnasáttmálinn er inni öllum stofum skólans og allir bekkir útbúa sinn eigin bekkjasáttmála þar sem barnasáttmálinn er undirstaðan. Skólastjórinn kveðst stoltur af viðurkenningunni.

Friðþjófur Helgi Karlsson, skólastjóri Háaleitisskóla Ásbrú:

„Við erum afar stolt af því að fá viðurkenningu sem Réttindaskóli UNICEF. Nemendur og starfsfólk skólans hafa unnið ötullega að því að ná því markmiði síðustu misseri að ákvæði Barnasáttmálans séu samofin inn í allt daglegt skólastarf. Það ber að þakka þeim allt þeirra óeigingjarna og góða starf sem leitt hefur til þessarar viðurkenningar. Það er mikilvægt að öll börn þekki rétt sinn og séu efld til virkrar þátttöku í lýðræðislegu samfélagi. Raddir barna eru mikilvægar fyrir framþróun hvers samfélags og mikilvægt að grundvallar mannréttindum þeirra sé mætt í öllu skólastarfi. Börnunum og samfélaginu öllu til heilla.“

Háaleitisskóli hlaut einnig hvatningaverðlaun fræðsluráðs Reykjansesbæjar á síðasta ári fyrir þetta sama verkefni. Í næstu viku verður svo haldið skólaþing til að halda upp á dag mannréttinda barna þar sem allir bekkir skólans fá að koma sínum sjónamiðum á framfæri til að bæta sitt skólaumhverfi.

Réttindafræðsla valdeflir börn og fullorðna

Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi

„Við erum ótrúlega stolt og ánægð að fá að veita verðskuldaðar viðurkenningar til skóla, frístunda– og félagsmiðstöðva í Kópavogi, Reykjavík og Suðurnesjum. Að baki hverri viðurkenningu liggur mikil vinna, mikið samráð barna og starfsmanna og vilji allra til að breyta til hins betra. Fræðsla um réttindi barna valdeflir jafnt börn og fullorðna til að vera lýðræðislegri, sjálfsöruggari, opnari og meira skapandi. Í mínum huga er ekki hægt að hugsa sér betra veganesti út í lífið.“

Um verkefnið

Að vera Réttindaskóli UNICEF felur í sér að Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna er lagður til grundvallar í öllu skólastarfi. Markmiðið er að byggja upp lýðræðislegt námsumhverfi, efla jákvæð samskipti, auka þekkingu á mannréttindum og stuðla að gagnkvæmri virðingu innan skólasamfélagsins. Með verkefninu er einnig skapaður rammi utan um þau ólíku sjónarhorn, stefnur og gildi sem skólum er ætlað að vinna eftir, svo sem aðalnámskrá grunnskóla, grunnskólalög og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna – sem var lögfestur hér á landi árið 2013.

Betri skóli með þátttöku barnanna

Rannsóknir sem gerðar hafa verið í meira en 1.600 Réttindaskólum í Bretlandi hafa sýnt afar jákvæðar niðurstöður. Einelti og ofbeldi í skólunum minnkaði, börnin sýndu aukið umburðarlyndi og skilning á fjölbreytileika, líðan barna batnaði og starfsánægja fullorðinna jókst umtalsvert.  Og það sem er líka mikilvægt, umræða um réttindi barna og Barnasáttmálann átti sér stað inni á heimilum barnanna.