Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Fréttir

Gylliboð til bæjarbúa þjóna engum tilgangi
Föstudagur 15. nóvember 2019 kl. 14:29

Gylliboð til bæjarbúa þjóna engum tilgangi

Tekist á um fasteignaskatta í bæjarstjórn Reykjanesbæjar.

„Við erum skuldsettasta bæjafélag landsins og við þurfum að haga okkur þannig á meðan það ástand varir. Gylliboð til bæjarbúa þjóna engum tilgangi,“ sagði Guðbrandur Einarsson, oddviti Beinnar leiðar á fundi bæjarstjórnar í síðustu viku eftir að sjálfstæðismenn lögðu fram tillögu um 100 milljón króna lækkun á fasteignagjöldum árið 2020. Fulltrúar meirihluta bæjarstjórnar sögðu á fundinum að hann hefði lækkað gjöldin í þrígang til að mæta mikilli hækkun fasteignamats og gagnrýndu harkalega þessa tillögu og sögðu hana óábyrga og ófaglega í ljósi þeirrar vinnu sem væri við fjárhagsáætlunargerð fyrir komandi ár.

Tillaga sjálfstæðismanna hljóðar svo: „Sjálfstæðisflokkurinn leggur til að tekjur frá fasteignagjöldum verði lækkaðar um 100 milljónir, úr 1800 milljónum í 1700 milljónir, í tillögu um fjárhagsramma skatttekna í drögum að fjárhagsáætlun fyrir 2020. Reykjanesbær hefur um árabil verið með hæstu fasteignaskattana á landinu og hér er aðeins um að ræða lækkun sem nemur 0,7% af heildartekjum. Fjöldi bæjarbúa hefur kvartað undan auknum skattbyrðum í kjölfar hækkunar fasteignamats síðustu árin. Fasteignaskattur er ekkert annað en eignaskattur sem er ekki aðeins tekjuauki fyrir sveitarfélög heldur íþyngjandi kostnaðarauki fyrir almenning og fyrirtæki og kemur niður á samkeppnishæfni sveitarfélagsins.“

Fram kom hjá fulltrúum meirihluta að það væri óábyrgt að koma með tillögu um 100 millj. kr. lækkun en ekki leiðir hvernig ætti að standa að henni. Finna þyrfti tekjur á móti eða lækka aðra liði til að mæta þessari tekjulækkun. Þá væri það ekki faglegt að skella þessu fram á bæjarstjórnarfundi þegar öll undirbúningsvinnan færi fram í bæjarráði. Eðlilegra hefði verið að koma með hana þar.

„Við vitum að það þarf að gera eitthvað til að klára þessa tillögu og við viljum finna leiðir til að ná henni fram,“ sagði Baldur Guðmundsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Oddvitar meirihlutaflokkana komu upp og voru mjög óhressir með tillöguna. Sögðu að vinna þyrfti að málum í samvinnu við Eftirlitsnefnd sveitarfélaga og ekki væri hægt að brjóta samninga við hana.

Sjálfstæðismenn voru á öðru máli og bentu á að Reykjanesbær væri með hæstu gjöld í öllum þáttum og þau þyrfti að lækka. Baldur Guðmundsson sagði að það væri alltof dramatískt að segja að verið væri að brjóta samning við Eftirlitsnefndina. „Ef við erum búin að ná því (skulda) viðmiði sem stefnt var að þá hlýtur að vera hægt að semja um einhverja hluti við hana,“ sagði Baldur og Ríkharður Ibsen, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks sagði það skrýtið ef ekki væri hægt að ná samningi við nefndina því það hefði gerst við síðustu lækkun fasteignagjalda.

Fjörugar umræður urðu á fundinum en hægt er að nálgast upptöku frá honum á vef Reykjanesbæjar.

Public deli
Public deli