Guðbrandur leiðir Viðreisn
Guðbrandur Einarsson, þingmaður Viðreisnar, leiðir listann í Suðurkjördæmi fyrir komandi alþingiskosningar en listinn var samþykktur á fundi landshlutaráðs flokksins í kvöld, 24. október.
Í öðru sæti er Sandra Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri og bæjarfulltrúi í Hveragerði. Þriðja sætið skipar Mathias Bragi Ölvisson, háskólanemi, og í fjórða sæti er Kristín María Birgisdóttir, upplýsinga- og markaðsfulltrúi Grindavíkurbæjar.
Guðbrandur segist þakklátur og stoltur að fá að leiða öflugan lista Viðreisnar í kjördæminu og að fá að vinna með öllu þessu frábæra fólki.
„Viðreisn hefur með staðfastri stefnu sinni verið að ná til fólks og við munum nýta þennan stutta tíma sem er fram að kosningum til þess að tala við kjósendur. Fólk í Suðurkjördæmi veit alveg hvað stjórnmálamenn þurfa að gera og eiga að vinna að. Nú er tækifæri til að breyta um kúrs og við í Viðreisn erum svo sannarlega reiðubúin til að láta hendur standa fram úr ermum. Fyrir fólkið okkar,“ segir Guðbrandur.