Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Fréttir

Grindvíkingar jákvæðastir
Fimmtudagur 11. febrúar 2021 kl. 14:51

Grindvíkingar jákvæðastir

Íbúar í Vogum reyndust ánægðastir allra með grunnskólaþjónustu. Íbúar í Reykjanesbæjar telja stöðu á íbúðamarkaði hafa batnað mest. Mikilvægi farsíma og vegakerfis hefur aukist mest frá fyrri könnun í Suðurnesjabæ.

Grindvíkingar eru ánægðastir allra á landinu með íþrótta- og skipulagsmál í heildarstigagjöf í nýrri skoðanakönnun meðal íbúa landsins á búsetuskilyrðum, hamingju og viðhorfi til síns sveitarfélags.  Þeir eru líka meðal þeirra ánægðustu á landinu með vegakerfi, unglingastarf, umhverfismál, rafmagnsmál, farsímakerfi, ásýnd, aðstoð við fólk í fjárhagsvanda, laun og framfærslu.

Að könnuninni stóðu landshlutasamtök sveitarfélaga á landinu ásamt Byggðastofnun og var hún gerð á íslensku, ensku og pólsku í september og október síðastliðnum. Niðurstöðurnar byggja á svörum frá 10.253 þátttakendum. Þetta er í fyrsta sinn sem svo víðtæk könnun um þessi efni nær til allra svæða landsins og er markmiðið að hún verði eftirleiðis gerð á tveggja til þriggja ára fresti og geti verið sveitarfélögum og stjórnvöldum mikilvægt tæki í búsetu- og byggðaþróun.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Spurt um 40 búsetuþætti

Í könnuninni var landinu skipt upp í 24 svæði og annaðist Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri gerð úrtaks. Spurt var um 40 atriði sem snerta búsetuskilyrði. Sem dæmi um fjölbreytileika í efnisatriðum má nefna friðsæld, loftgæði, skólamál, atvinnuöryggi, launatekjur, húsnæðismál, nettengingar, vegakerfi, vöruverð, þjónustu við fatlaða og aldraða, rafmagn, ásýnd bæja og sveita, almenningssamgöngur og margt fleira. Efnisatriðin snúa því að samfélagsinnviðum sem og þjónustuþáttum á forræði ríkis og/eða sveitarfélaga.

Suðurnes – samantekt helstu niðurstaðna

Íbúasvæði á Suðurnesjum eru fjögur í könnuninni, þ.e. Reykjanesbær, Grindavíkurbær, Sveitarfélagið Vogar og Suðurnesjabær. Íbúar á þessum svæðum voru einnig spurðir í hliðstæðri könnun árið 2017.

Viðhorf til sveitarfélags

Íbúar Grindavíkur jákvæðastir í afstöðu til síns sveitarfélags og raunar efstir á þessum lista yfir allt landið. Íbúar Reykjanesbæjar voru í sjötta neðsta sæti á listanum.

Búsetuskilyrði

Grindvíkingar eru ánægðastir allra á landinu með íþrótta- og skipulagsmál og eru meðal þeirra ánægðustu á landinu með vegakerfi, unglingastarf, umhverfismál, rafmagnsmál, farsímakerfi, ásýnd, aðstoð við fólk í fjárhagsvanda, laun og framfærslu. Grindvíkingar voru meðal þeirra þriggja landsvæða þar sem íbúar voru óánægðastir með grunnskólaþjónustu. Íbúar Reykjanesbæjar voru óánægðastir allra með öryggi og komu einnig, ásamt Suðurnesjabæ, verst út hvað varðar viðhorf til náttúrunnar. Íbúar þessara sveitarfélaga voru einnig óánægðir með málefni heilsugæslunnar og hjá íbúum Reykjanesbæjar fékk friðsæld lakasta einkunn allra sem svöruðu könnuninni. Íbúar Reykjanesbæjar voru ánægðastir með íbúðarhúsnæði og framboð leiguíbúða.

Íbúar í Vogum reyndust ánægðastir allra með grunnskólaþjónustu og eru einnig meðal þeirra ánægðustu með sorpmál, öryggi, umferð, umferðaröryggi og vegakerfi. Óánægðastir voru þeir allra í könnuninni með vöruúrval, tónlistarskóla, aðstoð við fólk í fjárhagsvanda og atvinnuúrval.

Í heildarstigagjöf fyrir landsvæðin 24 og þau 40 búsetuskilyrði sem spurt var um var Grindavík í 10. sæti, Suðurnesjabær í 15. sæti, Reykjanesbær í 16. sæti og Sveitarfélagið Vogar í 17. sæti.

Breytingar frá könnun árið 2017

Þegar svör úr könnuninni nú voru borin saman við hliðstæða könnun árið 2017 sjást breytingar á viðhorfi íbúa á Suðurnesjum í ýmsum málaflokkum.

Í Grindavík eru íbúðaframboð, þjónusta við fatlaða og leiguíbúðaframboð þeir þættir sem hafa batnað mest milli kannana, að mati íbúanna. Atvinnuöryggi telja þeir að hafi versnað mest frá 2017. Unglingastarf, náttúra og þjónusta við útlendinga eru þeir þættir sem mest hafa aukist að mikilvægi hjá íbúum.

Í Suðurnesjabæ jukust allir búsetuþættir að mikilvægi milli kannana. Tónlistarskólaþjónusta er sá þáttur sem íbúar telja að hafi batnað mest en dvalarheimilaþjónusta versnað mest. Mikilvægi farsíma og vegakerfis hefur aukist mest frá fyrri könnun að mati íbúanna.

Íbúar í Sveitarfélaginu Vogum telja atvinnuöryggi, almenningssamgöngur og nettengingar hafa versnað mest frá 2017 en að staðan hafi batnað mest hvað varðar framboð á leiguíbúðum, unglingastarf, þjónustu við fatlað fólk, vegakerfi og grunnskóla. Þeir telja mikilvægi leiguíbúða ekki eins mikið og áður en leggja nú meiri áherslu á almennt öryggi, friðsæld, greiða umferð, aðstoð við fólk í fjárhagsvanda og þjónustu við útlendinga.

Íbúar í Reykjanesbæ telja atvinnuöryggi og atvinnuúrval vera þætti sem hafi versnað mest frá 2017 en þeir telja stöðu á íbúðamarkaði hafa batnað mest. Áhersla á náttúru dróst mest saman hjá þeim milli kannana en mest jókst áhersla þeirra á aðstoð við fólk í fjárhagsvanda.