Blik í auga
Blik í auga

Fréttir

Götumálverk sem sýnir hvali í raunstærð
Fimmtudagur 30. júlí 2020 kl. 12:07

Götumálverk sem sýnir hvali í raunstærð

Nýtt götumálverk á hluta Suðurhóps í Grindavík er farinn að taka sig mynd. Verkefnið, sem hannað er af Margréti Ósk Hallgrímsdóttur, er ætlað að sýna sjávarríkið við Grindavíkurhöfn og að hægja á umferð á götunni.

 „Götumálverkið er í nánd við Hópskóla og þvi tilvalið til þess að hægja á umferð í kringum skólann. Ég er svo heppin að fá að vera vinnuskólanum innan handar hér í Grindavík sem ég fæ að aðstoða við að klára verkið. Við byrjuðum þann 20. Júlí og stefnum að því klára verkið á næstu dögum,“ segir Margrét.

Sjálf er Margrét alin að stórum hluta upp í Grindavík en flutti til Reykjavíkur til þess að læra grafíska hönnun í Listaháskóla Íslands. Margrét hefur komið að margvíslegum verkefnum fyrir Biskupsstofu og Miðstöð sameinuðu þjóðanna svo dæmi séu tekin. 

„Verkið er frekar einfalt og barnvænt og þarf að höfða til barnanna. Þetta eru lífverur sem búa í sjónum umhverfis Grindavík. Það er líka einkar skemmtilegt að segja frá því að hvalirnir eru allir í raunstærð. Hrefnan, Hnýsurnar og Hnúfubakurinn,“ segir Margrét.

Allir sem sóttu um í vinnuskóla Grindavíkurbæjar fengu vinnu og voru launaðir starfsmenn 221 um síðastliðin mánaðamót.