Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Fréttir

Glæsilegt mötuneyti APA opið öllum
Snorri matreiðslumeistari í matsalnum hjá Airport Associates. VF-myndir/pket.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 18. september 2020 kl. 07:32

Glæsilegt mötuneyti APA opið öllum

Margir veitingastaðir og mötuneyti á Keflavíkurflugvelli hafa lokað á veirutímum

„Við getum nýtt þessa aðstöðu okkar betur og í ljósi stöðunnar þá ákváðum viða að opna mötuneytið þar sem við getum við tekið við fleirum en bara starfsmönnum okkar í mat. Við erum með stórt og flott eldhús, matsal fyrir allt að 140 manns og hollan og góðan mat,“ segir Snorri Sigurðsson, matreiðslumeistari í eldhúsi Airport Associates á Keflavíkurfluvelli.

Þegar fyrirtækið opnaði nýjar og glæsilegar höfuðstöðvar á Keflavíkurflugvelli árið 2017 var nýtt eldhús ásamt stórum matsal tekið í notkun og var hugsað fyrir starfsmenn fyrirtækisins. Fjöldi þeirra náði hámarki sumarið 2018 þegar um 700 manns unnu hjá Airport Assosciates sem sinnir flugvallarþjónustu. Mikill fjöldi flugfélaga nýtti sér þjónstu APA en nú í miðjum heimsfaraldri með alvarlegum afleiðingum í ferðaþjónustunni hefur starfsemi APA dregist mikið saman. Um 130 manns starfa þar nú í 100 stöðugildum.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Eldhúsið opnaði eftir lokun vegna Covid-19 eftir verslunarmannahelgi en veiran var hvergi farin með þeim afleiðingum að starfsemin sem var komin í betri gang dróst aftur saman. Afleiðingarnar eru þær að Keflavíkurflugvöllur í heild sinni er aðeins svipur hjá sjón og þar er nú aðeins brot þeirra starfsmanna sem unnu þar þegar flugið var í fullum gangi. Veitingastaðir og eldhús á svæðinu hafa lokað en APA hefur því ákveðið að bjóða öllum að nýta sér mötuneytið og eru með opið alla virka daga frá klukkan 11 til 13 þar sem allir eru velkomnir í góðan hádegisverð á sanngjörnu verði.

Snorri segir að mikil áhersla sé lögð á góðan mat sem er lagaður af honum frá grunni. Í boði eru tveir aðalréttir á hverjum degi auk salatbars og heimabakaðs brauðs. „Við bjóðum fjölbreyttan mat, kjöt og fisk og ýmsa aðra góða rétti. Við viljum reyna að nýta þessa fínu aðstöðu betur og tókum því ákvörðun að opna mötuneytið þannig að allir sem vilja geti komið hingað í hádegismat. Hér er vítt til veggja og auðvitað spritt um allt hús,“ sagði Snorri matreiðslumeistari.