Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Glæsilegasti leikskóli landsins í Sandgerði
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 30. nóvember 2024 kl. 08:17

Glæsilegasti leikskóli landsins í Sandgerði

Stærsta fjárfesting sögunnar hjá Suðurnesjabæ. Vistar 130 börn í sex deildum og kostaði 1.300 milljónir. „Erum í skýjunum með flottan leikskóla,“ segir Arnbjörg Elsa leikskólastjóri.

„Þetta er líklega einn glæsilegasti leikskóli landsins en jafnframt lang stærsta einstaka fjárfesting Suðurnesjabæjar til þessa,“ sagði Magnús Stefánsson, bæjarstjóri, við formlega vígslu leikskólans Grænuborgar í Sandgerði á mánudag.

Grænaborg er sex deilda með tilheyrandi stoðrýmum, eldhúsi og veglegri aðstöðu fyrir starfsfólk. Gert er ráð fyrir 130 börnum og eftir opnun hans hafa öll börn sem sótt hafa um pláss komist að. Leikskólinn er 1.135 fermetrar að flatarmáli, leikskólalóðin er 3.800 m2 og stærð aðkomulóðar 2.700 m2. Heildarkostnaður er um 1,3 milljarður króna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Grænaborg hóf starfsemi í ágúst sl. og leysir af að fullu leikskólann Sólborgu.

Jón Ben Einarsson, sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs Suðurnesjabæjar, var eftirlitsmaður með framkvæmdinni sem tók rúmlega tvö ár en fyrsta skóflustunga var tekin í október 2021. Aðalverktaki var Bragi Guðmundsson, byggingaverktaki úr Suðurnesjabæ, en arkitekt og aðalhönnuður JeES arkitektar.

„Það var skipaður starfshópur í upphafi og hann fór og skoðaði marga leikskóla til að fá punkta. Meðal þátta sem komu fram í þessum heimsóknum var áhersla á hljóðvist og aðstöðu starfsfólks, mikilvægt að vanda til lýsingar og loftræstikerfis. Þetta var allt gert ásamt mörgu öðru. Við framkvæmdina komu margir verktakar og iðnaðarmenn úr Suðurnesjabæ en aðrir, nær allir frá Suðurnesjum. Þess má geta að sama teikning var notuð við byggingu nýs leikskóla í Hlíðahverfi í Reykjanesbæ en hann opnar á næstu vikum.

Arnbjörg Elsa Hannesdóttir er leikskólastjóri Grænuborgar en skólinn er rekinn af Suðurnesjabæ. Hún sagði að starfið gengi vel og mikil ánægja væri með nýja leikskólann. Börnin eru frá átján mánaða aldri til fimm ára. Hún segir að vel hafi gengið að manna skólann. „Við erum í skýjunum með þetta og allt gengur ótrúlega vel. Allir eru svo samstilltir. Við finnum mjög vel fyrir hvað hljóðvistin er mikilvæg,“ sagði hún.

Grænaborg í Sandgerði