Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Fréttir

Gígbarmurinn rís hæst í 334 m hæð yfir sjó
Ljósmynd: Styrmir Geir Jónsson
Mánudagur 13. september 2021 kl. 17:50

Gígbarmurinn rís hæst í 334 m hæð yfir sjó

- og vantar aðeins tæplega 20 metra upp á að hann nái sömu hæð og Stóri-Hrútur

Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands hefur birt nýjar mælingar á hraunflæði eldgossins í Fagradalsfjalli. Þær byggja á mælingum sem gerðar voru 9. september síðastliðinn.

Eftir langt tímabil með þungbúnu veðri þar sem þoka og lágský hafa hindrað loftmyndatökur yfir gosstöðvunum, tókst loks að ná nýjum mælingum þann 9. september. Þá voru teknar loftmyndir með Hasselblad myndvél Náttúrufræðistofnunar úr flugvél Fisfélagsins. Gerð hafa verið landlíkön eftir þessum mælingum og þau borin saman við eldri gögn. Mælingarnar sýna að meðaltal hraunrennslis yfir síðustu 32 daga er 8,5 m3/s. Nokkuð kröftugt gos var u.þ.b. helming tímans en það lá niðri þess á milli. Meðalrennslið á þeim tímum þegar gaus úr gígnum gæti því hafa verið u.þ.b. tvöfalt meira.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Hraunið er nú 143 millj. rúmmetrar og flatarmálið 4,6 ferkílómetrar. Á þessum mánuði sem liðinn er frá síðustu mælingu hefur hraun runnið í vestanverða Meradali, Syðri Meradal og norðurhluta Geldingadala og Nátthaga. Flatarmálið hefur aukist sáralítið, enda hraunrennsli mest á yfirborði svo hraunin í hverri hrinu hafa ekki náð út að jaðrinum á ofangreindum stöðum.

Yfirlit um hraunflæði

Þegar mælingin var gerð þann 9. september hafði ekki gosið í 7 daga. Á tímabilinu 8. ágúst til 2. september komu 16 hrinur sem þar sem gaus af verulegum krafti en á milli lá gosið niðri. Í hverri lotu var sýnilegt gos í um helming tímans. Á kyrru tímabilunum var gígurinn tómur og a.m.k. 70 m djúpur auk þess sem stundum var djúpt niðurfall í botni hans. Við þær aðstæður hefur engin kvika komið upp um gosrásina. Tíminn mun leiða í ljós hvort þessi lotubundna virkni heldur áfram eða hvort gosið tekur upp nýja hegðun.

Undanfarinn mánuð hefur hraunið ekki náð að renna út að jaðri á þeim stöðum sem fjærstir eru gígnum. Þetta stafar af því að í þá 12-24 tíma sem virknipúlsarnir standa hefur hraunrennslið að mestu verið á yfirborðinu. Kvikan kólnar því tiltölulega hratt og rennur styttra fyrir vikið. Í staðinn fyrir að breiða mikið úr sér hefur hraunið hlaðið upp lítilli en tiltölulega brattri dyngju. Gígbarmurinn rís hæst í 334 m hæð yfir sjó og vantar aðeins tæplega 20 metra upp á að hann nái sömu hæð og Stóri-Hrútur.