Optical Studio
Optical Studio

Fréttir

Getum ekki bara stólað á ferðaþjónustuna
Þorsteinn og hans fólk í Saltveri hefur lengi verkað saltfisk. Hér er mynd af karli í Saltveri fyrir nokkrum árum.
Mánudagur 22. apríl 2019 kl. 07:00

Getum ekki bara stólað á ferðaþjónustuna

segir Þorsteinn Erlingsson, eigandi Útgerðarfyrirtækisins Saltvers. Um 40% af starfsemi þess var uppsjávarfiskvinnsla sem nú heyrir sögunni til.

Uppsjávarfiskvinnsla heyrir nú sögunni til á Suðurnesjum í kjölfar lokunar loðnuverksmiðju í Helguvík en hún var ekki starfrækt í vetur þar sem engin loðna kom á land. „Þetta er högg fyrir okkar rekstur og eins að það er mikil óvissa með makrílvinnslu sem hefur verið drjúg hér undanfarin sumur,“ segir Þorsteinn Erlingsson, eigandi sjávarútvegsfyrirtækisins Saltvers hf. í Reykjanesbæ.

Þorsteinn hefur í marga áratugi verið með rekstur í sjávarútvegi, stundað báta- og skipaútgerð og fiskvinnslu í landi. Hann var bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í fjögur kjörtímabil í Reykjanesbæ og segir gjaldþrot WOW aðvörun sem þurfi að taka alvarlega.

„Þessi áföll að undanförnu styðja þá staðreynd að mikilvægt er að vera með fjölbreytni í atvinnulífinu. Við getum ekki bara stólað á eina stóra grein sem ferðaþjónustan nú er. Þess vegna er mikilvægt að atvinnurekstur fái að þróast í Helguvík með rekstri stóriðju. Við þurfum að fá bæði kísilverin í gang en auðvitað þurfa eigendur þeirra að sjá til þess að hlutirnir verði í lagi hvað varðar mengun og annað, eins og krafist er af öðrum atvinnurekstri,“ segir Þorsteinn.

„Þessi áföll að undanförnu styðja þá staðreynd að mikilvægt er að vera með fjölbreytni í atvinnulífinu. Við getum ekki bara stólað á eina stóra grein sem ferðaþjónustan nú er.“

Hann segir að eitt skrefið í að styrkja samfélagið á Suðurnesjum og rekstur sveitarfélaganna sé að sameina þau. „Suðurnesjabær og Vogar eiga að sameinast Reykjanesbæ og Grindavík auðvitað líka. Kröfur á sveitarfélögin hafa aukist mikið á undanförnum árum og þess vegna er mikilvægt að þau séu stærri. Þannig eiga þau auðveldar með að taka á knýjandi verkefnum.“

Uppsjávarvinnsla hefur verið um 40% af starfsemi Saltvers. Fyrirtækið hefur verið með loðnufrystingu í mörg ár sem skapað hefur fjölda starfa yfir veturinn, m.a. mikla aukavinnu fyrir skólafólk. Þorsteinn byrjaði að veiða loðnu í bræðslu árið 1964. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og þessi fiskur skilað miklu í þjóðarbú Íslendinga. Sama má segja um makrílvinnslu sem hefur komið sterk inn undanfarin sumur. Þorsteinn segir að útlitið sé dökkt með makrílinn vegna nýs frumvarps sem gæti þýtt nánast endalok makrílvinnslu á Suðurnesjum. Verið sé að færa til stóran hluta af kvóta, m.a. af bátum sem hafa stundað þessar veiðar í atvinnuskyni. Þá hefur Saltver tekið þátt í þróun makrílvinnslu t.d. með fjárfestingu í sérhæfðum tækjabúnaði. „Það verður auðvitað sorglegt ef makrílvinnsla verður að engu en hún hefur verið góð búbót undanfarin áratug,“ segir Þorsteinn. Um 40 manns hafa starfað hjá Saltveri en nú er útlit fyrir að þeim fækki.

Mikil óvissa er nú með makrílvinnslu á Suðurnesjum í sumar. 

 
Koma skipa með uppsjávarafla heyrir nú sögunni til í Helguvík. Bræðslunni hefur verið lokað og búnaður hennar verður fluttur á brott. 
Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs