Nettó
Nettó

Fréttir

Gestir fóru grátandi af fyrirlestri um Kristínu og Sissu
Frá forvarnafundinum í kvöld. Húsfyllir var í Akademíunni og komust færri að en vildu. VF-mynd: Hilmar Bragi
Þriðjudagur 2. október 2018 kl. 23:06

Gestir fóru grátandi af fyrirlestri um Kristínu og Sissu

- Troðfullt hús á forvarnafyrirlestri í Akademíunni

Það komust færri að en vildu á forvarnafyrirlesturinn Lof mér að falla, sem haldinn var í Akademíunni í Reykanesbæ í kvöld. Fundarsalurinn var þétt setinn en gestir fundarins voru þau Berglind Ósk Guðmundsdóttir og Jóhannes Kr. Kristjánsson.
 
Berglind Ósk er systir Kristínar Gerðar Guðmundsdóttir sem lést langt fyrir aldur fram árið 2001. Kvikmyndin Lof mér að falla er m.a. byggð á sögu Kristínar.
 
Jóhannes Kr. sagði sögu Sissu dóttur sinnar sem lést árið 2010, aðeins 17 ára gömul, af of stórum skammti fíkniefna eða læknadóps. Jóhannes er kunnur fréttamaður sem hefur látið sig þessi mál varða en á fundinum í kvöld talaði hann fyrst og fremst sem faðir. Hann sýndi einnig mikið af efni sem hann hefur unnið fyrir sjónvarpsþættina Kompás og Kastljós um málefnið.
 
Fyrirlestrar þeirra Berglindar og Jóhannesar hreyfðu við fólki í kvöld og fólk fór m.a. grátandi af fyrirlestrinum. Þau fengu bæði mörg faðmlög eftir fundinn og þakkir fyrir að deila sögunum með fólki, sem þau sögðu bæði að væri erfitt.
 
Jóhannes er þessa dagana að leggja lokahönd á heimildamyndina Lof mér að lifa sem verður sýnd á RÚV um miðjan mánuðinn. Hún byggir m.a. á gerð myndarinnar Lof mér að falla.
 
Þau Berglind Ósk og Jóhannes Kr. verða einnig gestir okkar í Suðurnesjamagasíni Víkurfrétta á Hringbraut og vf.is á fimmtudagskvöld kl. 20:30.
Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs