Fréttir

Gervigras og nýtt fjölnota íþróttahús í Reykjanesbæ
Fullbúinn gervigrasvöllur við Reykjaneshöll og nýtt fjölnota íþróttahús við Afreksbraut má sjá á þessari tölvugerðu mynd.
Föstudagur 21. júní 2019 kl. 14:34

Gervigras og nýtt fjölnota íþróttahús í Reykjanesbæ

„Mikilvægt er að koma til móts við vaxandi starfsemi íþróttafélaganna í Reykjanesbæ og sett verði framtíðarsýn í uppbyggingu íþróttamannvirkja fyrir alla íbúa sem eru samnýtt af íþróttafélögum innan bæjarins“. Þetta kemur fram í bókun íþrótta- og tómstundaráðs Reykjanesbæjar vegna stefnumótunar íþróttamannvirkja og íþróttasvæða Reykjanesbæjar.

Þá segir: „Í framhaldi af vinnu Capacent á stefnumótun í aðstöðu og íþróttamannvirkjum í Reykjanesbæ er ljóst að sameiginleg nýting mannvirkja og íþróttabúnaðar er skynsöm nýting á skattfé, aðgengi betra fyrir íbúa og stuðlar að aukinni þátttöku barna í íþróttum.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

ÍT-ráð er sammála ályktunum úr skýrslu Capacent um að bæta þurfi nýtingu á íþróttamannvirkjum í Reykjanesbæ í samstarfi við skóla og íþróttafélög.

Framtíðarstefna Reykjanesbæjar skal stuðla að sameiginlegri nýtingu mannvirkja, uppbyggingu miðlægs íþróttasvæðis og hagkvæmri aðstöðu fyrir bæjarbúa.

Íþrótta- og tómstundaráð leggur áherslu á að eftirfarandi framkvæmdir við íþróttamannvirki verði settar á fjárhagsáætlun á næstu árum. Uppbygging aðstöðu og íþróttamannvirkja verði reglulega endurskoðuð í samræmi við framtíðarsýn bæjarins“.

Á árinu 2019 verður unnið með niðurstöður Capacent og stillt upp þörfum íþróttafélaganna varðandi Afreksbraut. Þá verður teiknað upp framtíðarsvæði við Afreksbraut í samstarfi við USK og ÍT-ráð og áhersla lögð á að tengja hjóla- og göngustíga úr nærliggjandi hverfum

Á árinu 2020 verður hafist handa við byggingu á fullbúnum gervigraskeppnisvelli fyrir Keflavík og Njarðvík með stúku og búningaaðstöðu vestan Reykjaneshallar. Ný áhaldageymsla verður byggð við Reykjaneshöll

Árið 2021 verður hafist handa við hönnun á fjölnota íþróttahúsi við Afreksbraut sem staðsett verður á svæðinu milli æfingavalla Keflavíkur og Njarðvíkur í knattspyrnu. Í íþróttahúsinu verður keppnisvöllur fyrir körfuknattleiksdeildir Reykjanesbæjar, framtíðar aðstaða fyrir fimleikadeild og bardagaíþróttir, aðstaða fyrir skotdeild, lyftingar, golfklúbb ásamt félagsaðstöðu fyrir allar deildir.

Á árunum 2022-2026 verður hafist handa við byggingu fjölnota íþróttahúss sem verður byggt í áföngum. ÍT-ráð leggur áherslu á að keppnishús fyrir körfuknattleik og aðstaða fyrir fimleikadeild verði byggð í fyrstu áföngum byggingarinnar.

Fyrrgreindar tillögur verða unnar í samráði við aðalstjórnir beggja félaga og er íþrótta- og tómstundafulltrúa falið að boða formenn til fundar, segir í fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs Reykjanesbæjar.