Nettó
Nettó

Fréttir

Ganga til samstarfs um uppbyggingu á Reykjanesi
Frá Reykjanesvita.
Þriðjudagur 16. apríl 2019 kl. 09:00

Ganga til samstarfs um uppbyggingu á Reykjanesi

-Bláa Lónið hf. og Reykjanes Unesco Global Geopark í samstarf um styrkingu Reykjanessins

Bláa Lónið hf. og Reykjanes Unesco Global Geopark (RGP) hafa ákveðið að taka upp samstarf sem stuðlar að markmiðum Jarðvangsins á Reykjanesi og sveitarfélaganna fjögurra sem eru innan hans. Til staðfestingar því verður samstarfsyfirlýsing undirrituð í Bláa Lóninu í dag, þriðjudag, að viðstöddum forsvarsmönnum sveitarfélaganna á Suðurnesjum, Jarðvangsins og Bláa Lónsins.

Markmiðið samstarfsins er  m.a. að styrkja Reykjanesið sem áfangastað, stuðla að sjálfbærri nýtingu, vinna að bestu aðferðum til uppbyggingar í sátt við náttúru,  bæta þekkingu, viðhorf og verndarstöðu jarðminja á svæðunum, hvetja til nýjunga í náttúrutengdri sköpun og draga fram og viðhalda menningararfleifð svæðanna.

Af þessu tilefni hefur Bláa Lónið m.a. stofnað til félags með Grétu Súsönnu Fjeldsted, en hún er eini ábúandinn við Reykjanesvita í dag. Félagið mun m.a. sjá um uppbyggingu og rekstur þjónustumiðstöðvar við Reykjanesvita.

„Auk þess að efla vandaða þjónustuaðstöðu á vestanverðu Reykjanesi, sem lengi hefur skort, munum við aðstoða við merkingar svæðisins. Þá mun starfsmaður frá okkur hafa umsjón með svæðinu í samstarfi við Jarðvanginn“, segir Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa Lónsins.

„Það er gríðarlega mikilvægt fyrir Jarðvanginn og sveitarfélögin öll að fá sterkasta fyrirtæki okkar á Suðurnesjum til þessa mikilvæga samstarfs. Það gefur Jarðvagnum og sveitarfélögunum sem að honum standa byr undir báða vængi m.a. til að stórbæta aðstöðu, draga fram og vernda sérstöðu Reykjaness og vinna að bestu aðferðum til uppbyggingar í sátt við náttúruna,“ segir Ásgeir Eiríksson, formaður stjórnar Reykjanes Global Unesco Geopark og bæjarstjóri í Vogum.

Margir sækja Reykjanesvita.

 
Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs