Fréttir

Fyrirtæki á Suðurnesjum bjartsýn
Ritstjórn
Ritstjórn skrifar
föstudaginn 12. júlí 2019 kl. 16:18

Fyrirtæki á Suðurnesjum bjartsýn

Mikil bjartsýni ríkti á Suðurnesjum og var fjárfestingarhugur fyrirtækja hvergi meiri á landinu samkvæmt nýrri fyrirtækjakönnun sem atvinnuþróunarfélög allra landshluta létu vinna sl. haust í samstarfi við Byggðastofnun.

Frá þessu er greint á vef Heklunnar.

Að sögn Berglindar Kristinsdóttur framkvæmdastjóra Heklunnar, atvinnuþróunarfélags Suðurnesja eru niðurstöðurnar grátlegar í ljósi nýrrar stöðu á Suðurnesjum eftir fall WOW air og þurfi að lesa niðurstöðurnar með þeim fyrirvara þótt einhverjar blikur hafi verið á lofti þegar könnunin fór fram.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Könnunin var unnin af Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi og var hún lögð fyrir fyrirtæki allra landshluta nema á höfuðborgarsvæðinu í nóvember 2018 og til loka janúar 2019.

„Þetta er í fyrsta sinn sem slík könnun er gerð fyrir allt landið en þannig fáum við frekari samanburð við önnur landssvæði en í heildarkönnuninni kom fram að fyrirtæki á landsbyggðinni voru mun jákvæðari en fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu. Alls bárust 2000 svör en þátttaka fyrirtækja á Suðurnesjum var heldur dræm sem voru vonbrigði. Við vonumst til þess að fyrirtækjaeigendur taki betur við sér næst þegar könnunin verður lögð fram enda nýtast þessar upplýsingar þeim einnig,“ sagði Berglind.

Fyrirtæki á Suðurnesjum voru langlíklegust til að ráða fólk, þá sérstaklega þjónustufyrirtæki og fyrirtæki í ferðaþjónustu. Þetta átti við öll sveitarfélög utan Reykjanesbæjar. Nokkuð margir þátttakendur sögðu hinsvegar skort vera á menntuðu starfsfólki sem og fólki með ákveðna færni. Átti þetta sérstaklega við ferðaþjónustufyrirtæki.

Á Suðurnesjum kom fram mesti fjárfestingahugur þegar landshlutarnir voru bornir saman. Þar stóðu fyrirtæki með dreifða starfsemi út úr og framleiðslufyrirtæki. Þessi hugur verður líklegast rakin til þjónustufyrirtækja og framleiðslufyrirtækja annarra en í sjávarútvegi. Hins vegar var lítill fjárfestingarhugur í ferðaþjónustunni miðað við önnur fyrirtæki í landshlutanum. Mestur hugurinn innan landshlutans var utan Reykjanesbæjar.

Afkoma fyrirtækja á Suðurnesjum til skemmri tíma mældist nokkuð góð og fyrirtæki af svæðinu voru með hæstu hlutdeild sem mældist af viðskiptum við ferðaþjónustufyrirtæki. Þess má geta að 20% af allri veltu fyrirtækja á landsbyggðinni var vegna ferðaþjónustu en á Suðurnesjum var hlutfallið 21%.

Veikleikar Suðurnesja voru þeir að fyrirtæki á svæðinu hafa litlar tekjur af menningu og listum og hafnaði landshlutinn í neðsta sæti í samanburði við landshluta þegar kemur að skapandi greinum.

„Þetta eru mikilvægar upplýsingar fyrir okkur sem vinnum að atvinnuþróun á Suðurnesjum og munu þær m.a. nýtast í vinnu við nýja Sóknaráætlun fyrir Suðurnes sem nú er að hefjast. Okkar hlutverk er að styðja við atvinnulífið og þróun á þjónustu við íbúa og nýtast slíkar kannanir vel til þess. Við vonumst til þess að þessi könnun verði gerð á hverju ári svo hægt sé að fylgjast með þróun mála hjá fyrirtækjum á Suðurnesjum.