Fréttir

Fullbúið keppnishús og 25 metra sundlaug við Stapaskóla eftir 15 mánuði
Frá undirritun samninga í gær. VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson
Miðvikudagur 22. september 2021 kl. 10:39

Fullbúið keppnishús og 25 metra sundlaug við Stapaskóla eftir 15 mánuði

Verksamningar hafa verið undirritaðir milli Íslenskra aðalverktaka hf og Reykjanesbæjar vegna framkvæmda við áfanga II Stapaskóla. Þá hefur Reykjanesbær jafnframt undirritað samning við VSB Verkfræðistofu ehf. um eftirlit með framkvæmdum.

Fullbúið íþróttahús með áhorfendastúku við Stapaskóla ásamt 25 metra sundlaug og heitum pottum mun rísa við nýjan Stapaskóla á næstu fimmtán mánuðum. Íslenskir aðalverktakar hf. buðu lægst í framkvæmdina. Fullkláraður mun II áfangi Stapaskóla kosta um 2,4 milljarða króna en tilboð verktakans var um 92% af kostnaðaráætlun.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Körfuknattleiksdeild Njarðvíkur mun fá nýjan heimavöll í íþróttamannvirkinu við Stapaskóla sem menn kalla í dag Stapahöllina. Þar verður löglegur keppnisvöllur með áhorfendastæðum fyrir um 1.100 manns. Til samanburðar geta innan við 500 manns rúmast í áhorfendastæðum Ljónagryfjunnar með góðu móti.

Í minnisblaði byggingarnefndar Stapaskóla er lögð áhersla á að horfa til þessarar byggingar sem hjarta hverfisins sem er í hraðri uppbyggingu og miðstöð fyrir breiðan aldurshóp. Þar verði lögð áhersla á að skapa góða aðstöðu til íþróttaiðkunar fyrir unga sem aldna. Tenging verði við almenningsbókasafn og skólann þar sem jákvætt og heilbrigt samfélag blómstrar.