Fréttir

Fréttamyndir ársins 2020 á Suðurnesjum
Bílaflutningabíll fullur af bílaleigubílum í vandræðum á Reykjanesbraut á árinu 2020.
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
laugardaginn 16. janúar 2021 kl. 08:00

Fréttamyndir ársins 2020 á Suðurnesjum

Nýliðið ár kemst einna helst í sögubækurnar fyrir kórónuveirufaraldurinn. Hér á Suðurnesjum voru náttúruöflin einnig í stóru hlutverki á árinu 2020. Tíðir og öflugir jarðskjálftar gerðu Grindvíkingum lífið erfitt og um tíma var óttast að eldgos gæti ógnað byggð í Grindavík.



Óveður voru einnig tíð og höfðu mikil áhrif á t.a.m. samgöngur. Myndin hér að ofan var tekin í fjöldahjálparstöð sem sett var upp í íþróttahúsinu við Sunnubraut í Keflavík í annarri viku janúar í fyrra. Flugsamgöngur röskuðust, mikil ófærð var á Reykjanesbraut og farþegar sátu fastir.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Kórónuveiran hafði mikil áhrif á alla starfsemi í Flugstöð Leifs Eiríkssonar svo til allt síðasta ár. Flugsamgöngur stöðvuðust nær alveg um tíma. Um páskana voru farþegar rétt um eitthundrað talsins en hefðu verið tugir þúsunda í eðlilegu árferði. Ljósmyndari Víkurfrétta smellti af þessum myndum hér til vinstri í flugstöðinni á nýliðnu ári. Grímurnar voru komnar upp þann 30. janúar!

Engin slys urðu á fólki þegar eldur kom upp í flutningabíl á Grindavíkurvegi á miðvikudagsmorgni í ágúst 2020. Flutningabíllinn gjöreyðilagðist í eldinum. Slökkvilið Grindavíkur og lögregla fóru á vettvang. Þegar slökkvilið kom á staðinn var bíllinn alelda og lagði þykkan reykjarmökk frá honum, eins og sjá má á myndinni sem einn af lesendum Víkurfrétta tók og sendi til blaðsins. Suðurnesjafólk hefur verið duglegt að standa með okkur fréttavaktina og hefur tekið myndir og sent okkur til birtingar af viðburðum og fréttatengdum málum.
Ljósmynd: Jóhann Snorri Sigurbergsson

Ægir konungur sýndi ógnarkrafta sína við Ægisgötuna í Keflavík í febrúar 2020. Kröftugar öldur köstuðu stórgrýti langt upp á land í djúpri lægð sem gekk yfir landið. Veðurkortin fyrir landið voru eldrauð þennan dag og langt síðan Suðurnesjamenn höfðu séð annað eins veður.

Í Garðinum voru mikil sjávarflóð og flæddi langt upp á land í Gerðum. Á myndinni að ofan má sjá hvernig umhorfs var í Garðinum. Ljósmynd: Einar Jón Pálsson


Íbúafundur var haldinn í lok janúar 2020 í íþróttahúsi Grindavíkur vegna óvissuástands sem lýst hafði verið yfir vegna jarðhræringa við Þorbjörn. Jarðvísindafólk fór yfir stöðuna, enda var ekki vitað hvað gæti verið í vændum. Öflugir jarðskjálftar skóku Reykjanesskagann allt árið og á tímabili var bæjarbúum í Grindavík ekki rótt vegna ástandsins. Bærinn skalf og nötraði og margir skjálftar voru það öflugir að vel fannst fyrir þeim. Ógnin varir enn og óvissa er ennþá viðvarandi um ástandið í náttúrunni.



Á tímum kórónuveirunnar var ýmislegt gert til að hafa ofan af fyrir börnum. Meðal annars voru bangsar settir í glugga svo hægt væri að fara með börn í gönguferðir og í bangsaleit.


Mjög harður árekstur varð á Sandgerðisvegi í janúar 2020 þegar tveir bílar lentu framan á hvor öðrum en lögreglan hafði veitt öðrum þeirra eftirför. Tveir voru í öðrum bílnum en einn í hinum. Meiðsl þessara tveggja voru alvarlegri. Sjúkrabílar fluttu fólkið á sjúkrahús og þurfti að klippa báða mennina úr öðrum bílnum. Tók það nokkurn tíma og var Sandgerðisvegi lokað í tvær, þrjár klukkustundir.


Jónatan Stefánsson hitti Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, á árinu og færði henni Vinstri græna lopapeysu. Jónatan er einn af stofnfélögum VG og mikill aðdáandi Katrínar, sem reyndar er líka mikill aðdáandi Jónatans.

Samfélögin á Suðurnesjum eru full af skapandi fólki og það blómstraði sumarið 2020. Hughrif í bæ er verkefni sem staðið var fyrir í Reykjanesbæ þar sem ungt fólk skapaði muni og listaverk. Hér er verið að mála vegg við Fischershús þar sem einnig var settur upp pizzaofn og útbúnir bekkir og borð þar sem njóta má fallegra sumardaga.



Starfsemi Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hefur verið lömuð meira og minna allt árið 2020. Ástandið var þannig um tíma að nær eina flugumferðin á Keflavíkurflugvelli var flug dróna frá fjölmiðlum sem mynduðu Stopp-stöðuna sem var á vellinum. Vonandi rís sól ferðaþjónustunnar sem fyrst að nýju og líf færist í eðlilegt horf sem fyrst.

Það var kátt í Keflavíkurkirkju í haust þegar þar fóru fram síðbúnar fermingar. Börnin sem áttu að fermast í vor voru fermd í haust. Myndin að ofan var tekin í síðustu fermingu haustsins. Gleðina má sjá í prestunum Fritz Má og Erlu.

Að ofan má sjá heilbrigðisstarfsfólk á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja við sýnatöku vegna Covid-19. Sýnatökur hafa verið stórt verkefni hjá HSS á árinu 2020.

Grjót hrundi úr bröttum hlíðum á Reykjanesskaganum í öflugum jarðskjálfta í október. Grindvíkingurinn Jón Steinar Sæmundsson var við upptök skjálftans þar sem þessi björg rúlluðu niður á veginn þar sem hann ók um.

Hringbraut í Keflavík var sem vígvöllur yfir að líta eftir harðan árekstur í kjölfar ofsaaksturs. Íbúi við götuna lýsti í viðtali við Víkurfréttir áhyggjum sínum af hraðakstri. Tjónvaldurinn beið eftir lögreglu á vettvangi en farþegi lagði á flótta. Hann fannst síðar sama kvöld og var handtekinn. Fjölmennt lögreglu- og björgunarlið kom fljótt á vettvang, enda vettvangur slyssins skammt frá bæði lögreglu- og slökkvistöðinni í Reykjanesbæ.



Á lögreglustöðinni við Hringbraut í Keflavík var haldið uppboð á reiðhjólum og rafmagnsvespum þar sem vespan á myndinni hér að ofan var seld hæstbjóðanda á heilar 500 krónur!

Mannlífið á Suðurnesjum hefur blómstrað þrátt fyrir veiruvesen. Fjölskyldur fóru út með snjóþotur og sleða þegar snjóaði síðasta vetur og eldri borgarar nýttu sér góðviðrisdaga síðasta sumar til að pútta á Mánaflöt í Keflavík.



„Fast þeir sóttu sjóinn og sækja hann enn“ má segja um þessa mynd frá Grindavík sem tekin var í ársbyrjun 2020. Þrátt fyrir jarðskjálfta og eldgossvá þá fiskaðist vel og þessi væna langa kom á línuna. Lesendur Víkurfrétta gátu svo fylgst með aflafréttum í blaðinu allt árið.

Dílaskarfar lögðu undir sig hafnarmannvirki í Keflavík á árinu og sátu þar sem fastast á meðan brimið barði klappirnar við Bakkastíginn.