Píratar
Píratar

Fréttir

Framkvæmdagleði í Reykjanesbæ
Sunnudagur 12. september 2021 kl. 07:52

Framkvæmdagleði í Reykjanesbæ

Sumarið og árið nýtt vel til margvíslegra stærri og smærri framkvæmda í bæjarfélaginu. Guðlaugur H. Sigurjónsson, sviðsstjóri umhverfissviðs, segir árið hafa verið viðburðaríkt og framkvæmdir standi yfir til loka árs.

Sumarið og árið hefur verið vel nýtt til framkvæmda hjá Reykjanesbæ. Guðlaugur H. Sigurjónsson, sviðsstjóri umhverfissviðs, segir árið hafa verið viðburðaríkt hjá starfsmönnum sviðsins og mikið um framkvæmdir.

„Umhverfissvið starfar þvert á önnur svið þegar kemur að undirbúningi og umsjón með framkvæmdum. Starfsmenn umhverfissviðs hafa puttana í öllu ferlinu, allt frá skipulagsmálum, hönnun, kostnaðar- og tímaáætlun, svo og eftirfylgni með verkum og loks rýni eftir að verki er lokið,“ segir Guðlaugur Helgi.

Viðreisn
Viðreisn

Stapaskóli langstærsta verkefnið

Það hefur ekki farið fram hjá mörgum að Reykjanesbær hefur verið að byggja nýjan og glæsilegan grunnskóla í Innri-Njarðvík. Hvenær lýkur þeim framkvæmdum?

„Stapaskóli er langstærsta verkefni sem Reykjanesbær hefur farið í undanfarin ár en fyrsti áfangi var tekinn í notkun á síðasta ári. Í raun hafa framkvæmdir verið allt til þessa dags með frágang og lagfæringar verktaka. Fyrsti áfangi er rúmlega 7.500 fermetra bygging sem rúmar grunnskólahluta skólans, það hefur einnig verið nýtt tímabundið sem húsnæði fyrir leikskóla á lóð. Annar áfangi er svo í útboði núna og verður það opnað í lok ágúst. Annar áfangi er fullbúið keppnisíþróttahús ásamt sundlaug og útisvæði. Áætlaður framkvæmdatími er um tvö ár þannig það er von á að sá áfangi verði tekinn í notkun haustið 2023. Þriðji og síðasti áfangi þessa mannvirkis er svo 120 barna leikskóli sem verður sambyggður núverandi skóla að austanverðu en undirbúningur við þriðja áfanga fer af stað í haust.“   

Nýtt útisvæði í Vatnaveröld

Viðskiptavinir Sundmiðstöðvarinnar í Keflavík hafa glaðst á árinu. Guðlaugur tekur undir það en viðamikla framkvæmdir hafa staðið yfir í meira en ár.

„Já, nýtt og endurbætt útisvæði í Vatnaveröld var tekið í notkun með formlegum hætti síðasta vor. Framkvæmdin fól í sér að setja upp nýja vatnsrennibraut en hún er glæsilegt mannvirki, tvöföld tíu metra há rennibraut, nýtt pottasvæði á vestursvæðinu, tveir heitir og einn kaldur pottur, en hugmyndin er að nýta þetta svæði betur, þarna var áhorfendastæði áður sem var lítið sem ekkert nýtt. Þá var sett upp ný gufuaðstaða með bæði blaut- og þurrgufu. Útiklefar stækkaðir og bættir. Á sama tíma var tíminn nýttur til almenns viðhalds á gólfi útisvæðisins. Næstu framkvæmdir á þessu svæði eru að hækka og stækka vaktturninn sem er kominn til ára sinna og vegna stærra vaktasvæðis er nauðsynlegt að fara í þá framkvæmd.“

Nýr Gervigrasvöllur

Vestan Reykjaneshallar hefur verið tekinn í notkun stórglæsilegur gervigrasvöllur. Framkvæmdir hófust við þennan völl vorið 2020 og verður hann tekinn formlega í notkun á næstunni en æfingar eru þegar hafnar á vellinum.

„Ástæða fyrir þessum framkvæmdum var vöntun á æfingaaðstöðu knattspyrnudeilda Keflavíkur og Njarðvíkur en það svæði sem hægt er að nota til æfinga á veturna, Reykjaneshöllin, var sprungið og mikil þörf á frekara æfingasvæði. Þótt þessi völlur hafi verið byggður fyrst og fremst sem æfingavöllur þá hefur allur undirbúningur, bæði hönnun og framkvæmd, verið með þeim hætti að um keppnisvöll verði að ræða í framtíðinni. Völlurinn er flóðlýstur, upphitaður og búinn vökvunarbúnaði. Stærð vallarins, efni á yfirborð og allt í kringum völlinn fer eftir stöðlum FIFA fyrir keppnisvelli. Huga þarf að aðstöðu fyrir áhorfendur á næstunni þar sem völlurinn verður örugglega nýttur til keppni yngri iðkenda.“

Heilsustígurinn vinsæll

Heilsustígar eru hluti af víðfeðmu stígakerfi Reykjanesbæjar. Guðlaugur segir að heilsustígarnir séu að jafnaði 2,8 metrar á breidd, upplýstir og með fleiri bekkjum og ruslatunnum.

„Á þessu ári höfum við bætt u.þ.b. 3.000 metrum við heilsustígakerfið. Áherslur umhverfis- og skipulagssviðs eru að bæta verulega í þetta á næsta ári og þá er fókusinn settur á Ásbrú. Allir heilsustígar tengjast með einhverjum hætti gönguleið með ströndinni, Strandleið, og mynda þar með einskonar hringi. Til stendur að setja upp kort og skilti á þessar gönguleiðir en nú þegar er þetta kerfi komið á kortavef Reykjanesbæjar. Vel hefur verið tekið í þessa framkvæmd af bæjarbúum og tölur sýna að þeir eru vel nýttir. Talningartæki sem við erum með á þremur stöðum við Heilsustíginn sýnir að um 117 þúsund ferðir hafa verið farnar fram hjá talningartækjunum núna í lok ágúst.

Aukin áhersla Reykjanesbæjar á útivist, lýðheilsu, loftslagsmál og umferðaröryggi mótar uppbyggingu þeirra. Í uppbyggingu heilsustíga er eitt af megin markmiðum að tryggja gangandi og hjólandi vegfarendum aukið öryggi á ferðum sínum að og frá grunnskólum og frístundastarfsemi. Umhverfissvið lítur á gott stígakerfi sem hluta af almenningssamgöngum í Reykjanesbæ. Heilsustígar mynda líka göngu- og hjólaleið meðfram nánast allri strandlengju Reykjanesbæjar sem íbúar nýta mikið. Heilsustígar eru breiðari og almennt betur upplýstir en aðrir stígar og eru þannig liður í því að minnka skutl foreldra til og frá grunnskólum og frístundum, fækka bílum og minnka þörf á almenningssamgöngum. Þannig má minnka útblástur, tryggja betri loftgæði og auka umferðaröryggi. Vilji Reykjanesbæjar stendur til þess að heilsustígakerfið tengi Reykjanesbæ við öll nágrannasveitarfélög á Suðurnesjum.“

Átak í yfirlögnum gatna

Í vor varð nokkuð ljóst að ástand gatna í Reykjanesbæ var ansi bágborið og segir Guðlaugur að óskað hafi verið eftir aukafjármagni frá bæjarráði til að fjölga þeim götum sem færu í yfirlagnir.

„Þessi ósk okkar var svo samþykkt og á þessu ári höfðum við því um 260 milljónir til ráðstöfunar í yfirlagnir en það er sú tala sem við teljum okkur þurfa til að vera með eðlilegt viðhald gatna á hverju ári. Á tímabilinu maí til september voru u.þ.b. sjö kílómetrar (45.000 fermetrar) af götum yfirlagðar og til stendur að bæta tveimur kílómetrum við fyrir árslok. Unnið er eftir ástandsskoðun og er nú til áætlun til næstu ára sem unnið verður eftir.“

Umferðaröryggisáætlun

Á þessu ári var farið í herferð til að auka umferðaröryggi barna í og úr grunnskólum. Göngu- og hjólaleiðir grunnskólabarna hafa verið kortlagðar með skoðunarkönnun og út frá þeirri könnun unnin aðgerðaráætlun.

„Við teljum heilsustígsverkefni hluta af þessari aðgerðaráætlun en auk þess höfum við bætt gönguleiðir barna með bættu stígakerfi almennt, öruggari gangbrautum, upplýstum, með svokölluðum „Blátoppum“ og með hraðaminnkandi aðgerðum. Áfram verður haldið á þessari braut.“

Fráveituverkefni og fleiri smærri verkefni

Auk yfirlagna gatna þarf, að sögn Guðlaugs, einnig að huga að fráveitulögnum í götum.

„Átak hefur verið gert í ástandsskoðun lagna út um allan bæ, þær aldursgreindar og staðsettar í landupplýsingarkerfi. Það eru tvær aðferðir notaðar við endurnýjun lagna, þ.e. ef ástand lagna þola svokallaða fóðringu þá er það alltaf fyrsta val því það er bæði ódýrara og veldur mun minna raski fyrir íbúa og umferð. Þessi aðferð gefum lögnunum auka líftíma um tugi ára. Ef ástand lagna er metið þannig að skipta þurfi þeim út þá er það gert. Í gömlum hverfum Reykjanesbæjar er um steinlagnir að ræða og ástandsskoðun hefur sýnt að oft og tíðum er botn lagnanna búinn, hreinlega upptærður. Á þessu ári höfum við endurnýjað lagnir í Miðtúni og Sóltúni, fóðrað í Birkiteigi og Greniteigi. Árið 2022 þurfum við líklega að klára Hátúnið og Garðaveg en þau verk eru í undirbúningi.“

Guðlaugur segir að fjölmörg minni verkefni hafi einnig verið unnin eða eru í vinnslu, s.s. ný fjallahjólabraut á Ásbrú, þrautabraut í Njarðvíkurskógum, nýtt hundagerði, nýr Frisbee-golfvöllur, endurnýjun ljóskúpla í gatnalýsingu, ný umferðarljós á Hringbraut, endurnýjun ljósanna á Berginu og margt margt fleira.