Fréttir

„Frábært að fá þessa bók í kennslu!“
Marta og Páll með bókina góðu þegar hún kom út árið 2012.
Laugardagur 4. júní 2022 kl. 08:48

„Frábært að fá þessa bók í kennslu!“

– sögðu allir sem tóku við gjöfinni

Það var mikil ánægja í öllum grunnskólum á Suðurnesjum þegar Marta Eiríksdóttir, rithöfundur og jógakennari, kom færandi hendi með fyrstu útgefnu skáldsögu sína Mei mí beibísitt? en bókin var gefin út af höfundi og Víkurfréttum fyrir tíu árum. 

Það hafði lengi verið ætlun Mörtu og Páls Ketilssonar, ritstjóra Víkurfrétta, að gefa skólunum bekkjarsett af bókinni sem fjallar um líf barna í Keflavík á sjöunda áratug síðustu aldar og nú létu þau verða af því. 

Marta sem er íslenskukennari að mennt útbjó einnig vinnubók fyrir kennara sem gefur þeim innblástur að því hvernig nota má bókina í kennslu. Hún sér einnig fyrir sér hvernig hægt er að búa til leikþætti úr hverjum kafla bókarinnar sem eru mjög myndrænir. 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Bókin gefur ótal möguleika í skapandi íslenskukennslu enda var það alltaf markmið Mörtu þegar hún sjálf kenndi áður, við Myllubakkaskóla og Fjölbrautaskóla Suðurnesja, að örva skapandi kraft nemenda sinna.

Mei mí beibýsitt? – Æskuminningar úr bítlabænum Keflavík er söguleg skáldsaga sem gerist í heimabæ höfundar, sem rifjar upp og segir frá daglegu lífi barnanna í götunni þar sem hún ólst upp. Bókin er skrifuð út frá sjónarhorni barns. Þetta eru minningar um horfna veröld, gamla tíma, þar sem skapandi kraftur barnanna sá um að skemmta þeim sjálfum daglangt á sumrin. Engar tölvur eða farsímar voru til. 

Ameríski herinn kemur töluvert við sögu í bæjarlífinu enda bjuggu þeir á þessum tíma niðri í bæ og leigðu í kjöllurum og bílskúrum bæjarbúa. Börnin íslensku umgengust oft fjölskyldur hermanna.

Bókin, sem hefur fengið einróma lof lesenda og þykir skemmtileg aflestrar, verður ekki gefin út aftur og er því orðin safngripur. 

Marta Eiríksdóttir, sem starfar í dag við fjölbreytt námskeiðahald, leggur einnig rækt við bókaskrif og er nýjasta ástarsaga hennar nú í skoðun hjá bókaforlagi. 

Marta hefur áður gefið út skáldsöguna Mojfríði einkaspæjara og jafnframt Becoming Goddess – Embracing Your Power! sem er sjálfsræktarbók skrifuð á ensku en allar bækur hennar má fá lánaðar á bókasöfnum. Marta Eiríksdóttir er einnig á Storytel en þar las hún sjálf inn íslensku bækurnar sínar.

Skólastjórnendur voru allir ánægðir að fá eintök af bókinni sem mun nýtast í skapandi íslenskukennslu.