Omnis
Omnis

Fréttir

Flöskuskeyti fundið eftir tíu ára sjóferð til Noregs
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
fimmtudaginn 18. júlí 2019 kl. 11:19

Flöskuskeyti fundið eftir tíu ára sjóferð til Noregs

Flöskuskeyti fundið eftir tíu ára sjóferð til Noregs

Flöskuskeyti sem Guðmundur Ragnar Magnússon, sigmaður og stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni, kastaði í sjó þann 12. október árið 2009 er fundið. Skeytið fannst í vor í Skålevær, Helgeland í Noregi. Guðmundur Ragnar greinir frá þessu á fésbókarsíðu sinni.

Kona hafði samband við Guðmund frá Noregi fyrir nokkrum dögum. Hún sagði honum að 14 ára sonur hennar hefði fundið flöskuskeyti. Sendandinn héti Guðmundur Ragnar Magnússon og að skeytinu hefði verið hent út af varðskipinu Ægi 12.10.2009. Skeytið fannst í vor í Noregi í Skålevær, Helgeland.

„Skeytið var reyndar ekkert til þessarar konu eða sonar hennar. Það Var stílað á Magnús Mána minn. Hann var á þessum tíma 8 mánaða og var bara heima með Kristjönu. Ætli ég hafi ekki bara saknað hans svo mikið þarna að ég hef ákveðið að senda honum línu,“ segir Guðmundur Ragnar í fésbókarfærslunni.

Efstu línurnar eru eiginlega alveg horfnar, þannig að það er ekkert skrítið að það hafi ekki skilað sér, skrifar Guðmundur þegar hann lýsir ástandinu á innihaldi flöskuskeytisins.

„Ég skrifaði bréfið á 1200-0400 vaktinni og henti því í sjóinn í framhaldi af því. Þá vorum við um 130 sjómílur SV af Reykjanesi á leið í að sækja vélbilaðan Grænlenskan togara“.

Þar sem skeytið fannst í vor eru meira en 1000 sjómílur í beinni línu frá þeim stað þar sem flöskunni var kastað í sjó. Skeytið var í plastflösku sem flaut án efa vel ofan á sjónum, vindar hafa sennilega haft mest áhrif á hvernig rekið var.

Hann segir einnig í færslunni að á þessum tíma hafi hann kastað þremur flöskuskeytum í sjó. Hin fóru í sjó djúpt norður af Húnaflóa og á miðlínunni milli Íslands og Færeyja. Skeytið sem fór í sjóinn norður af Húnaflóa skilaði sér inn um bréfalúguna heima hjá Guðmundi Ragnari tveimur árum síðar „enda stílað á hana Kristjönu mína“.

„Gaman að þessu, munum svo að vera ekki að henda rusli í sjóinn,“ segir Guðmundur Ragnar Magnússon í gamansömum tón.

Svona var ástandið á bréfinu í flöskuskeytinu eftir 10 ára ferðalag úr hafinu við Íslands og til Noregs.Þessar upplýsingar um varðskipið fylgdu með í flöskuskeytinu.

Gulir pinnar sýna hvar skeytinu var kastað og hvar það fannst.

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs