Fréttir

Fjölmenni á 25 ára afmælisfundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar
Guðný Birna Guðmundsdóttir, forseti bæjarstjórnar á hátíðarfundinum í ræðustól. Hún stiklaði á stóru í sögu bæjarfélagsins. VF-myndir/sólborg.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 14. júní 2019 kl. 10:42

Fjölmenni á 25 ára afmælisfundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar

Á annað hundrað manns mættu á 25 ára afmælis- og hátíðarfund hjá Bæjarstjórn Reykjanesbæjar sem haldinn var í Stapa á afmælisdag bæjarins, þriðjudaginn 11. Júní. Gestum var boðið í afmæliskaffi eftir fundinn, bæjarfulltrúar úr fyrstu bæjarstjórn sameinaðs sveitarfélags Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna fluttu ávörp og boðið var upp á tónlistaratriði.

Á bæjarstjórnarfundinum fór Guðný Birna Guðmundsdóttir stuttlega yfir 25 ára sögu bæjarins en hún var starfandi forseti á fundinum í forföllum Jóhanns Friðriks Friðrikssonar. Þá kynnti Guðbrandur Einarsson stefnumótum Reykjanesbæjar til ársins 2030. Ný bæjarmálasamþykkt Reykjanesbæjar var samþykkt eftir aðra umræðu en eina málið sem ekki var full sátt um á fundinum var endurskoðun stjórnskipulags Reykjanesbæjar. Tillaga kom frá bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins um að fresta málinu en þeir töldu að nauðsynlegt væri að ræða málið betur. Hún var felld og var því nýtt Stjórnskipulag samþykkt með 7 atkvæðum meirihlutans og Miðflokksins en bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Frjáls afls sátu hjá.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Þrír bæjarfulltrúar úr fyrstu bæjarstjórninni 1994-1998, þau Jónína Sanders, fyrsti formaður bæjarráðs, Drífa Sigfúsdóttir, fyrsti forseti bæjarstjórnar og Jóhann Geirdal, bæjarfulltrúi, fluttu stutta tölu þar sem þau rifjuðu upp atriði frá sameiningunni sem var sú fyrsta hjá sveitarfélögum á landinu. Fyrir utan sameininguna sjálfa var nafnamálið það stærsta og bæjarfélagið fékk nafnið Reykjanesbær, um ári eftir sameiningu. Öll voru þau sammála um að sameiningin hafi heppnast vel og hafi verið gæfuspor fyrir sveitarfélögin og bæjarbúa.

Sjónvarp Víkurfrétta ræddi við þau Jónínu, Drífu, Jóhann og Kjartan Má Kjartansson, bæjarstjóra eftir fundinn en viðtölin má sjá í Suðurnesjamagasíni þessarar viku, á Hringbraut og á vf.is.

Ellert Eiríksson, fyrsti bæjarstjóri Reykjanesbæjar fékk fyrstu kökusneiðina á afmælisdegi bæjarins. Hér er hann með Guðbjörgu Sigurðardóttur, eiginkonu sinni. VF-myndir/sólborg.

25 ára afmælisfundur Reykjanesbæjar