Stilling Bílaþjónusta Suðurnesja
Stilling Bílaþjónusta Suðurnesja

Fréttir

Fjölmennasta brautskráning nemenda Keilis frá upphafi
Laugardagur 15. júní 2019 kl. 11:17

Fjölmennasta brautskráning nemenda Keilis frá upphafi

Guðrún Edda Haraldsdóttir dúx vorannar.

Keilir brautskráði 185 nemendur við hátíðlega athöfn föstudaginn 14. júní síðastliðinn en um er að ræða fjölmennustu útskrift skólans frá upphafi. Fyrsta útskrift Keilis fór fram sumarið 2008 en síðan hafa samtals 3.522 nemendur lokið námi við skólann.

Við athöfnina, sem fór fram í Andrews leikhúsinu á Ásbrú, brautskráðust nemendur úr Háskólabrú, Íþróttaakademíu og Flugakademíu. Þetta var jafnframt síðasta útskrift Hjálmars Árnasonar, sem hefur verið framkvæmdastjóri Keilis frá árinu 2009.

Nærri tvö þúsund nemendur hafa útskrifast af Háskólabrú frá upphafi

Háskólabrú Keilis brautskráði 93 nemendur úr þremur deildum skólans. Eftir útskriftina hafa yfir 138 nemendur Háskólabrúar lokið námi það sem af er ársins, en í ágúst bætist auk þess við útskritarhópur úr Verk- og raunvísindadeild skólans.

Berglind Kristjánsdóttir, forstöðumaður Háskólabrúar, flutti ávarp. Dúx Háskólabrúar var Guðrún Edda Haraldsdóttir með 9,64 í meðaleinkunn. Fékk hún bók frá Íslandsbanka og spjaldtölvu frá Keili sem viðurkenningu fyrir góðan námsárangur. Þá fékk Ögn Þórarinsdóttir menntaverðlaun Háskóla Íslands fyrir framúrskarandi árangur á Háskólabrú og eftirtektarverða þrautsegju. Ásta Dorsett flutti ræðu útskriftarnema.

Með útskriftinni hafa samtals 1.839 nemendur lokið Háskólabrú Keilis og hafa lang flestir þeirra haldið áfram í háskólanám bæði hérlendis og erlendis. Mikill fjöldi umsókna er í Háskólabrú Keilis fyrir haustönn 2019 og hefur verið stöðug aukning í námið á undanförnum árum. Nú geta nemendur valið að sækja Háskólabrú í staðnámi eða fjarnámi, bæði með og án vinnu, en námið veitir aðgang að flest öllu námi í háskólum hérlendis auk háskóla erlendis.   

Fyrsta útskrift sameinaðra skóla Flugakademíu Keilis og Flugskóla íslands

Flugakademía Keilis útskrifaði 43 atvinnuflugnema og hafa þá samtals 71 atvinnuflugnemar útskrifast úr skólanum það sem af er ársins. Rúnar Árnason, forstöðumaður Flugakademíunnar, flutti ávarp. Dúx var Hekla Kolbrún Sæmundsdóttir með 9,54 í meðaleinkunn og fékk hún bókagjöf frá Icelandair. Ræðu útskriftarnema flutti Hrannar Páll Kristbjargarson.

Þetta var fyrsta brautskráning atvinnuflugnema Keilis eftir að skólinn sameinaðist Flugskóla Íslands fyrr á árinu. Eftir sameininguna verður til einn öflugasti flugskóli á Norðurlöndum, með á rúmlega tuttugu kennsluvélar og á fjórða hundrað flugnemendur.

Samtals hafa 289 nemendur lokið atvinnuflugmannsnámi hjá Keili frá upphafi. Með útskrift Flugskóla Íslands, sem fór fram í lok maí, hafa samtals 126 atvinnuflugnemar lokið bóklegu námi á Íslandi það sem af er ársins.

Einkaþjálfarar Keilis brautskráðir með evrópska vottun

Samtals 40 nemendur brautskráðust sem ÍAK þjálfarar úr Íþróttaakademíu Keilis, 24 einkaþjálfarar og 16 styrktarþjálfarar. 

Með útskriftinni hafa 685 einstaklingar lokið þjálfaranámi frá Keili. Arnar Hafsteinsson, forstöðumaður Íþróttaakademíu Keilis flutti ávarp. Alda Ýr Guðmundsdóttir fékk viðurkenningu fyrir góðan námsárangur í ÍAK einkaþjálfun með 9,66 í meðaleinkunn og Andrés Gísli Ásgeirsson fékk viðurkenningu fyrir góðan námsárangur í ÍAK styrktarþjálfun með 9,86 í meðaleinkunn. Þau fengu bæði TRX bönd frá Hreysti og gjafabréf frá H-verslun. Ketill Helgason flutti ræðu útskriftarnemenda fyrir hönd Íþróttaakademíu Keilis.

ÍAK einkaþjálfaranám Keilis hlaut á síðasta ári alþjóðlega viðurkenningu og vottun á vegum Europe Active stofnunarinnar. Vottunin er gæðastimpill á því námi sem skólinn hefur boðið upp á undanfarin ár og mun auka sýnileika útskrifaðra nemenda á alþjóðavísu, en framvegis verða útskrifaðir einkaþjálfarar skráðir í EREPS gagnagrunn þeirra og öðlast þar með evrópska vottun á færni sinni.

Mikil tækifæri hjá leiðsögumönnum í ævintýraferðamennsku

Íþróttaakademía Keilis og Thompson Rivers University í Kanada brautskráðu níu nemendur úr leiðsögunámi í ævintýraferðamennsku. Námið hefur vakið athygli bæði meðal íslenskra og erlendra nemenda og hafa samtals 85 nemendur frá hátt í tuttugu þjóðernum útskrifast á undanförnum árum.

Simon Ward Able, yfirkennari hjá Thompson Rivers University, flutti ávarp fyrir hönd samstarfsháskóla Keilis í leiðsögunáminu. Hjördís Björnsdóttir hlaut viðurkenningu fyrir bestan námsárangur með 9,08 í meðaleinkunn. Fékk hún gjöf frá GG sport.

Hjálmar Árnason lætur af störfum sem framkvæmdastjóri Keilis í sumar, en hann hefur starfað við skólann frá upphafi.

Ljósmyndastofa Oddgeirs - Barna
Ljósmyndastofa Oddgeirs - Barna