Max Norhern Light
Max Norhern Light

Fréttir

Fjöldahjálparstöð opnuð í Íþróttahúsi Keflavíkur
Fjöldi flugfarþega var komin í Íþróttahús Keflavíkur um kl. 23. VF-myndir/PállOrri.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 12. janúar 2020 kl. 22:36

Fjöldahjálparstöð opnuð í Íþróttahúsi Keflavíkur

Hundruð flugfarþega í vandræðum í óveðri í Keflavík

Opnuð hefur verið fjöldahjálparstöð í Íþróttahúsi Keflavíkur. Margir hafa lent í vandræðum á leið sinni til Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar í kvöld en löng röð bíla er stopp frá Þjóðbraut að flugstöð. Rauði Krossinn heldur utan um þessa aðstoð í samvinnu við starfsmenn Icelandair og björgunarsveitarfólk. „Við búumst við 200-300 manns hingað. Við gefum þeim kaffi og kex og þau bíða af sér veðrið. Það er gert ráð fyrir að því sloti um miðnætti og þá ætti fólk að geta farið upp í flugstöð.

Annars þarf að gera ráðstafanir með gistingu,“ sagði Hannes Friðriksson hjá Suðurnesjadeild Rauða Krossins í samtali við Víkurfréttir.

Flugfarþegar sem hafa verið fastir í bílum sínum eða rútum geta farið í íþróttahúsið og fengið þar kaffi á meðan þeir bíða eftir að veðrinu sloti.

Ástandið á Keflavíkurflugvelli er slæmt og sex flugvélar flugfélagsins fastar úti á flughlaði án þess að tekist hafi að koma farþegum í flugstöðina. Landgangar flugstöðvarinnar hafa verið teknir úr notkun vegna óveðursins. Icelandair hefur fellt niður allar flugferðir í kvöld. Átta vélar Icelandair lentu í Keflavík í kvöld en einni var snúið til Egilsstaða.