Fréttir

Ferming í Innri Njarðvík á sunnudaginn
Frá fermingarathöfn í Njarðvíkurkirkju í mars 2013.
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
föstudaginn 13. mars 2020 kl. 14:26

Ferming í Innri Njarðvík á sunnudaginn

Ferming verður í Njarðvíkurkirkju í Innri Njarðvík á sunnudaginn. Biskup Íslands lýsti því yfir í morgun að allt messuhald og vorfermingar falla niður í Þjóðkirkjunni. Ákvörðunin er tekin með almannaheill í huga og gildir á meðan samkomubann er í gildi. Samkomubannið hefur ekki tekið gildi á sunnudag og því mun fermingarathöfnin fara fram.

Pétur Rúðrik Guðmundsson hjá Njarðvíkurkirkju sagði í samtali við Víkurfréttir að mælst væri til þess að aðeins nánustu aðstandendur fermingarbarna kæmu með þeim í athöfnina í kirkjunni.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Allt messuhald og vorfermingar falla niður í Þjóðkirkjunni, segir í tilkynningu. Ákvörðunin er tekin með almannaheill í huga og gildir á meðan samkomubann er í gildi.

Ekki er ljóst á þessari stundu hvenær farið verður af stað aftur með hefðbundið starf.

Ákvörðun biskups Íslands verður endurskoðuð í samhengi við frekari ákvarðanir stjórnvalda.

Hins vegar verður streymt frá messuhaldi á netinu þann tíma sem almennt messuhald fellur niður.

Prestar landsins halda áfram að gegna mikilvægri sálgæsluþjónustu með öllum þeim varúðarsjónarmiðum sem landlæknir hefur gefið út. Boð þess efnis fóru frá biskupi Íslands út til presta rétt í þessu.

Ljóst er að þessi ákvörðun setur þann einstaka viðburð sem ferming er hverjum einstaklingi og fjölskyldu hans í erfiða stöðu. Fermingardagur er tímamótaviðburður í lífi einstaklinga - um leið er dagurinn oft mikið ættar- og vinamót. Þetta er því þung ákvörðun að taka, en um leið afar mikilvæg og tekin með velferð fólks í huga.

Framundan er mikil áskorun fyrir íslenskt samfélag að takast á við þennan vágest sem COVID-19 er. Þar mun fullur sigur vinnast með samtakamætti, samheldni og ábyrgð – trú, von og kærleika.

Sem stendur er gert ráð fyrir sumarfermingum og haustfermingum. Allar nánari útfærslur verða gerðar í samráði presta og safnaða. Við hvetjum því alla að hafa samband við sinn prest eða kirkju varðandi framhaldið.

Næstu dagar munu einkennast af snörum vendingum, nýjum upplýsingum og hröðum skiptingum. Það er því afar mikilvægt að fylgjast vel með og samtaka að fylgja fyrirmælum stjórnvalda.

Upplýsingar frá Þjóðkirkjunni munu birtast á kirkjan.is – Facebook og Twitter.

Biskup Íslands mun ávarpa þjóðina í útvarpsmessu á sunnudag. Að þessu sinni verður útvarpsmessan frá Reynivöllum í Kjós þar sem sr. Arna Grétarsdóttir þjónar.