Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Fréttir

Fengu tundurskeyti úr þýskum kafbáti í veiðarfæri
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
miðvikudaginn 16. desember 2020 kl. 22:20

Fengu tundurskeyti úr þýskum kafbáti í veiðarfæri

Togveiðiskipið Pálína Þórunn GK frá Sandgerði fékk tundurskeyti úr þýskum kafbáti í veiðarfæri síðdegis,en talið er að um sprengjuhleðslu úr þýsku tundurskeyti frá seinni heimsstyrjöld sé að ræða. Víkurfréttir greindu fyrstar miðla frá sprengjunni fyrr í kvöld. Skipið var þá að veiðum skammt frá Sandgerði. Á þeim slóðum sem tundurskeytið kom í veiðarfærið lagði þýskur kafbátur til atlögu við Goðafoss og fleiri skip í síðari heimsstyrjöldinni.

Séraðgerða- og sprengjueyðingarsveit Landhelgisgæslunnar var kölluð út og stjórnstöð Landhelgisgæslunnar óskaði eftir skipið færi þegar í stað til hafnar í Sandgerði og sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar voru sendir á staðinn.

Public deli
Public deli

Þegar togarinn var kominn til hafnar var skipið rýmt og sprengjusérfræðingarnir undirbjuggu flutning tundurskeytisins frá borði með sérstökum flothólkum og að lokum var duflið híft í sjóinn og dregið með slöngubát séraðgerðasveitar hálfan annan kílómetra frá höfninni.

Til stóð að eyða tundurskeytinu í kvöld en því hefur verið frestað. Séraðgerða- og sprengjueyðingarsveit Landhelgisgæslunnar hefur komið tundurskeytinu fyrir á um 10 metra dýpi, hálfan annan kílómetra frá Sandgerðishöfn þar sem því verður eytt. Vegna sjólags og myrkurs hefur verið ákveðið að eyða sprengjuhleðslunni á morgun við betri aðstæður.


Myndir frá vettvangi síðdegis og í kvöld.  VF-myndir: Hilmar Bragi. Myndir af tundurskeyti frá Landhelgisgæslunni.