Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Fréttir

Fagradalsfjallseldar
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
sunnudaginn 14. ágúst 2022 kl. 08:14

Fagradalsfjallseldar

Umfjöllun Víkurfrétta miðvikudaginn 10. ágúst 2022

Eldgos hófst í Meradölum, á um 300 metra langri sprungu sem liggur í NNA upp í hlíðar vestasta Meradalahnjúksins, kl. 13:18 miðvikudaginn 3. ágúst síðastliðinn. Sprungan er um það bil einn kílómetra norðaustur af megingígnum sem var virkur í gosinu Fagradalsfjalli í fyrra. Það gos stóð í sex mánuði, frá mars fram í september á síðasta ári. Staðsetningin fellur vel að því að gossprungan liggi yfir suðurenda gangsins sem verið hefur að myndast í jarðskorpunni undanfarna daga.


Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Öflug jarðskjálftahrina hófst síðustu dagana í júlí með þúsundum skjálfta. Nokkrir tugir skjálfta yfir M4 að stærð og einn skjálfti upp á M5,4 varð um verslunarmannahelgina. Íbúar á suðvesturhorni landsins fundu mikið fyrir skjálftahrinunni og Grindvíkingar þó mest. Þannig hafði stóri skjálftinn upp á M5,4 mikil áhrif í Grindavík og olli þónokkru tjóni, enda voru upptökin við bæjardyrnar. Vísindamenn lýstu því yfir að talsverðir möguleikar væru á eldgosi á næstu dögum og vikum og það stóðst, því kvikan náði til yfirborðs í Meradölum 3. ágúst í beinni útsendingu á vefmyndavélum mbl.is. Vélarnar höfðu vaktað svæðið í aðdraganda gossins.

Talsvert hefur dregið úr jarðskjálftavirkni á svæðinu eftir að gosið hófst og Grindvíkingar hafa margir sagt að þeir andi léttar að vita að gos sé hafið á öruggum stað enn og aftur í dölum handan Fagradalsfjalls. Skjálftavirkni er alls ekki hætt og hafa orðið gikkskjálftar á svæðum bæði vestan og austan við gosstöðvarnar, sá stærsti upp á M4,2.

Enginn ræfill

Eldgosið sem braust út þann 3. ágúst er enginn ræfill, þó svo það teljist meinlítið eins og stendur. Það var fimm til tíu sinnum stærra en gosið í Geldingadölum á síðasta ári. Framleiðni í gosinu var um 32 rúmmetrar á sekúndu á fyrsta sólarhring gossins en er nú talin um 18 rúmmetrar á sekúndu. Ef ekki opnast nýjar gossprungur utan Meradala þá er talið að það muni taka vikur og mánuði þar til hraun tekur að renna út úr dölunum. Allt eins er þó búist við því að nýjar gossprungur geti opnast, líkt og í síðasta gosi í Fagradalsfjalli. Þá liðu nokkrar vikur frá því fyrsta sprungan opnaðist og þar til fleiri sprungur opnuðust og gígar tóku að myndast. Fyrra gosið endaði að lokum í einum gíg sem hlóðst upp í Fagradalsfjalli. Hann hætti að gjósa 18. september í fyrra, eða sex mánuðum eftir að gosið hófst. Nýjar gosrásir eru fyrst taldar geta opnast þegar þrengingar verða í þeim sem fyrir eru, sem geta orðið þegar gígar byrja að myndast yfir gossprungunni. Gígamyndun er nú hafin í yfirstandandi gosi en gossprungan hefur dregist saman í virkni í nokkrum gosopum sem fram til þessa hafa aðallega fóðrað stóra hrauntjörn sem svo rennur úr í Meradalina.

Getur staðið mánuðum saman

Vísindamenn segja að núverandi gos geti staðið yfir mánuðum saman eins og það fyrsta. Það sé líka skilgreiningaratriði hvort gosið sem hófst 3. ágúst sé nýtt gos eða framhald af gosinu í Geldingadölum frá 19. mars 2021. Menn eru þó sammála um að nú sé hægt að tala um Fagradalsfjallselda og búast megi við eldsumbrotum á Reykjanesskaganum næstu ár, áratugi og aldir. Kvikan sem nú kemur upp er sömu gerðar og kvikan úr fyrsta gosinu og kemur djúpt úr iðrum jarðar, alla leið frá möttlinum.

Leiðin erfið yfirferðar

Þúsundir hafa lagt leið sína í Meradali á þessari fyrstu viku eldgossins. Leiðin þangað er erfið yfirferðar og gangan í raun aðeins fyrir vant göngufólk. Björgunarsveitir hafa þurft að koma mörgum til aðstoðar og fjölmargir hafa lagt vanbúnir af stað, illa klæddir og ekki með nauðsynlegan búnað og vistir. Gosglaðir Íslendingar og erlendir ferðamenn átta sig ekki á vegalengdum og aðstæðum og ágætur Suðurnesjamaður vakti athygli á því í athugasemd á samfélagsmiðlum að við erum að fást við eldgos í óbyggðum en ekki varðeld og brekkusöng við bílastæðið.

Taka gosið föstum tökum

Grindavíkurbær hefur tekið eldgosið föstum tökum, ef svo má segja, og ætlar að ráðast í að bæta innviði við Fagradalsfjall og mun standa straum af kostnaði við ýmsa þætti svo þeir verði unnir sem fyrst. Þannig áætlar Fannar Jónasson, bæjarstjóri, að gosið kosti bæjarsjóð um 60 milljónir króna og væntir þess að kostnaður sem lendi á bænum vegna gossins verði gerður upp síðar.

Eldgosið er þegar farið að hafa jákvæð áhrif á ferðaþjónustu í Grindavík. Veitingastaðir eru þétt setnir og jafnvel hafa sést raðir inn í verslun Nettó þegar gosgestir hafa verið að hlaða á birgðir fyrir gönguna í fjallið.

Skoða sprungur nærri Grindavík

Jarðhræringarnar í lok júlí og fyrstu dagana í ágúst hafa valdið raski í náttúrunni. Víða hefur mátt sjá hvar stórgrýti hefur rúllað niður hlíðar. Þá hafa sprungur myndast, sumar hverjar mjög áberandi í landslaginu og eru tugir sentimetra á breidd. Vísindafólk Veðurstofu Íslands er að kortleggja þessar sprungur.