Fréttir

Færanleg rafstöð staðsett hjá Björgunarsveitinni Suðurnes
Færanleg rafstöð eins og þessi er nú staðsett hjá Björgunarsveitinni Suðurnesi.
Fimmtudagur 25. febrúar 2021 kl. 08:33

Færanleg rafstöð staðsett hjá Björgunarsveitinni Suðurnes

Þrettán björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar fengu afhentar nýjar færanlegar rafstöðvar fyrir síðustu helgi. Björgunarsveitir Landsbjargar fá allt í allt rúmlega 30 nýjar færanlegar rafstöðvar á þessu ári. Tilgangurinn er að efla rekstraröryggi í fjarskiptum þegar óveður geysa eða hamfarir verða og tryggja eins og kostur er að hægt verði að hringja eftir aðstoð í neyð og kalla út viðbragðsaðila. Með því að fjölga færanlegum rafstöðvum og staðsetja hjá björgunarsveitum verður hægara að koma rafmagni aftur á þar sem þörf krefur og bæta þannig lífsgæði fólks.

Afhending færanlegra rafstöðva markar upphaf á öðrum áfanga í átaki stjórnvalda um úrbætur á fjarskiptainnviðum eftir mikil óveður í desember 2019. Í fyrri áfanga var varaafl bætt á 68 fjarskiptastöðvum, einkum á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi. Í þeim síðari verður hugað að fjarskiptastöðvum á Suðurlandi, Vesturlandi og suðvesturhorninu. Færanlegar rafstöðvar bætast við net af föstum rafstöðvum um land allt. Þegar átakinu lýkur mun samanlagt afl allra varaaflstöðvanna nema um tveimur MW. Meðalafl fastra rafstöðva er um tuttugu kW en í færanlegum rafstöðvum um fimmtán kW.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Ein af þessum þrettán rafstöðvum sem afhentar voru í síðustu viku eru í umsjón Björgunarsveitarinnar Suðurnes í Reykjanesbæ, sem verður umsjónaraðili stöðvarinnar sem þó er ætluð til nota þar sem hennar verður þörf á Suðurnesjum.