Nettó
Nettó

Fréttir

Erfitt að fá klippingu í bítlabænum
Það var nóg að gera á Promoda hársnyrtistofunni sem er staðsett á Nesvöllum í Reykjanesbæ. VF-mynd/pket.
Fimmtudagur 2. ágúst 2018 kl. 15:00

Erfitt að fá klippingu í bítlabænum

Svo mikið er að gera á hársnyrtistofum í Reykjanesbæ að erfitt getur verið að fá tíma í klippingu. „Það hefur verið fækkun í stéttinni á svæðinu og ekki nógu mikil endurnýjun samfara mikilli fólksfjölgun. Við látum okkar gömlu viðskiptavini ganga fyrir og þeir bóka yfirleitt tíma innan sex vikna og þannig verður lítið svigrúm eftir til að taka á móti nýjum viðskiptavinum,“ segir Marta Teitsdóttir, hárgreiðslumeistari á hársnyrtistofunni Promoda í Reykjanesbæ.

Marta segir að vinnudagur þeirra fjögurra sem starfa á Prodoma sé yfirleitt mjög langur. Þær byrji snemma morgun og iðulega fram á kvöldmat. Aðspurð um tískusveiflur í hárgreiðslu og klippingu sögðu þær stöllur á stofunni að flestar konur vildu fá lit í hárið en svo væri allt nokkuð opið hvað klippingu varðar. „Þetta er ekki eins og þegar 70% kvenna fengu sér permanent en það eru nokkuð mörg ár síðan,“ sögðu þær.

En hvað með karlana sem í gegnum tíðina hafa oft viljað koma inn á stofu og fá klippingu með stuttum eða engum fyrirvara. „Það gengur ekki lengur en auðvitað reynum við að þjóna okkar fólki vel og stundum er hægt að bjarga málunum. En við þurfum líka að fara á klósettið og það er stundum eina pásan sem við fáum,“ sögðu þær hressar þrátt fyrir annríkið.

Sama er upp á teningnum hjá annarri grein á svæðinu en það eru tannlæknar. Þar þarf að panta tíma eins og hjá hárgreiðslufólkinu og þar hefur lítil sem engin fjölgun orðið í stéttinni í áraraðir þrátt fyrir mikla íbúafjölgun á Suðurnesjum.

Svipaða sögu er að segja frá fleiri þjónustugreinum á Suðurnesjum um þessar mundir. Iðnaðarmenn eru mjög uppteknir í margvíslegum verkefnum og erfitt er að fá pípara, smið eða rafvirkja, hvað þá múrara.

 

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs