Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Fréttir

Eldsneytisnotkun Isavia kolefnisjöfnuð
Fimmtudagur 13. júní 2019 kl. 07:41

Eldsneytisnotkun Isavia kolefnisjöfnuð

Sveinbjörn Indriðason, starfandi forstjóri Isavia, Reynir Kristinsson, stjórnarformaður kolefnissjóðsins Kolviðs, og Eyþór Eðvarðsson, stjórnarformaður Votlendissjóðs, undirrituðu í nýlega samninga um kolefnisjöfnun allrar eldsneytisnotkunar Isavia. Samningarinn gildir næstu þrjú árin. Við undirritun samninganna var einnig greint frá því að Isavia hefði lokið við annað skref í innleiðingu á kolefnisvottun ACA (Airport Carbon Accreditation) fyrir Keflavíkurflugvöll. Vottunarkerfi er í fjórum skrefum. Það var hannað af ACI, Alþjóðasamtökum flugvalla, sem Isavia er meðlimur að. Kerfið er sérstaklega sniðið að rekstri og starfsemi flugvalla.

Eldsneytisnotkun vegur þyngst í kolefnisspori Isavia. Stærsta hluta þessarar notkunar má rekja til þjónustu og viðhalds á flugbrautum og athafnasvæðum flugvalla og er sú þjónusta  að miklu leyti háð veðri. Á síðasta ári var heildarlosun gróðurhúsalofttegunda vegna bruna eldsneytis í starfsemi Isavia 2.694 t CO2e .  Um er að ræða beina losun í starfsemi Isavia og er sá þáttur þar sem félagið hefur mest tækifæri til úrbóta. 

Public deli
Public deli

„Isavia hefur á síðustu árum lagt áherslu á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í starfseminni,“ segir Sveinbjörn Indriðason, starfandi forstjóri Isavia. „Árið 2015 var sett markmið um að lækka losun gróðurhúsalofttegunda um 29% á hvern farþega fyrir árið 2030. Í dag hefur Isavia þegar minnkað losun gróðurhúsalofttegunda í rekstri sínum um tæp 40 prósent á farþega. Markmiðið verður því endurskoðað.“

„Við  hjá Kolviði hlökkum mikið til samstarfsins við Isavia um kolefnisjöfnun á starfsemi þeirra,“ segir Reynir Kristinsson, stjórnarformaður Kolviðs. „Þetta sýnir einnig samfélagslega ábyrgð og gott framlag til að draga úr og kolefnisjafna losun sem tengist flugstarfsemi.“

„Isavia gengur fram fyrir skjöldu af fyrirtækjum í eigu ríkisins með þessum samningum,“ segir Eyþór Eðvarðsson, stjórnarformaður Votlendissjóðs. „Við hjá Votlendissjóði erum þakklát fyrir stuðninginn. Sjóðurinn verður búinn að kolefnisjafna allt magnið sem keypt er strax á þessu ári. Ávinningurinn er mikill. Til viðbótar við stöðvun á losun gróðurhúsalofttegunda. Þá eru votlendisvistkerfin endurheimt og þannig stuðlað að líffræðilegum fjölbreytileika dýra, fiska og fugla í íslenskri náttúru.“

Skrefin fjögur eru:

  • Kortlagning kolefnisspors
  • Markmiðasetning og minnkun kolefnislosunar
  • Minnkun kolefnislosunar í samstarfi við aðra rekstraraðila á flugvellinum
  • Kolefnisjöfnun flugvallarins

Skref tvö felur því í sér að félagið hefur kortlagt losun gróðurhúsalofttegunda í starfseminni og vaktar og stýrir þeim þáttum þar sem losunin er mest. Til að ná öðru skrefi hefur einnig verið sýnt fram á að dregið hafi verið úr losun gróðurhúsalofttegunda á hvern farþega yfir þriggja ára tímabil.

Isavia hefur sett sér aðgerðaráætlun í umhverfis- og loftslagsmálum. Meðal aðgerða í áætluninni er að meirihluti ökutækja sem keypt eru skuli vera vistvænn í þeim flokkum sem slíkt býðst. Dregið hefur verið úr notkun jarðefnaeldsneytis með kaupum á rafbílum og starfsmenn með meirapróf fara á vistakstursnámskeið.

„Isavia er meðvitað um þá ábyrgð sem hvílir á fyrirtækinu varðandi loftslagsmál,“ segir Sveinbjörn Indriðason starfandi forstjóri. „Við vinnum með virkum og skipulögðum hætti að aðgerðum til að þess að minnka kolefnisspor félagsins.“