Optical Studio
Optical Studio

Fréttir

Ekið á lögreglubíl á slysavettvangi
Myndir af vettvangi á Reykjanesbraut sem lögreglan á Suðurnesjum birti á fésbókasíðu sinni.
Mánudagur 21. janúar 2019 kl. 14:23

Ekið á lögreglubíl á slysavettvangi

- Ökumenn sýna litla tillitsemi og hægja ekki ferðina þrátt fyrir aðvaranir

Lögreglumönnum var verulega brugðið að sjá tillitleysið í sinn garð á slysavettvangi á Reykjanesbraut í gærmorgun. Mikil hálka var á Reykjanesbraut og útafakstur á Strandarheiði en akstursskilyrði voru slæm. Þangað fóru lögreglumenn til aðstoðar á vettvangi. Ekið var á lögreglubifreið á vettvangi. Lögreglubíllinn var með blá blikkandi ljós en þegar þannig háttar eiga ökumenn að sýna sérstaka aðgát.
 
Hámarkshraði á Reykjanesbraut á þessum slóðum er 90 km/klst miðað við bestu aðstæður, þær aðstæður voru ekki í gærmorgun. 
 
„Lögreglumenn á vettvangi töluðu um að ökumenn sem óku á hægri akreininni hafi ekki svo mikið sem hægt á sér við vettvanginn og sagði einn lögreglumaður sem var á vettvangi við kollega sinn að þetta myndi ekki enda vel,“ segir á fésbókarsíðu lögreglustjórans á Suðurnesjum. Og lögreglan bætir við: „Sú varð raunin, 5 mínútum eftir að hann sagði þetta var ekið aftan á lögreglubifreiðina með þeim afleiðingum að lögreglubifreiðin er talsvert skemmd, hin bifreiðin að öllum líkindum ónýt en það versta að okkar menn og ökumaður hins bílsins finna til eymsla eftir óhappið“.
 
Það er einlæg ósk lögreglunnar að ökumenn sýni tillitssemi í kringum slysavettvanga og dragi verulega úr hraðanum er þeir nálgast vettvanginn til að koma í veg fyrir frekari slys. „Förum varlega í umferðinni, ökum miðað við aðstæður og sýnum hvoru öðru tillitssemi“.

 
Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs