Nettó
Nettó

Fréttir

Dýrt að fá aðstoð og litla hjálp að fá
Miðvikudagur 27. febrúar 2019 kl. 09:37

Dýrt að fá aðstoð og litla hjálp að fá

– segir faðir drengs sem tók eigið líf aðeins ellefu ára gamall vegna eineltis

Arnar Helgason, faðir drengs sem tók eigið líf á heimili sínu ellefu ára gamall, segir það ótrúlega dýrt að leita sér aðstoðar og almennt litla hjálp að fá. Dagbjartur, sonur Arnars, upplifði einelti og Arnar segir heilbrigðiskerfið fjársvelt og það geti ekki tekið við þessum fjölda fólks. „Ég skil alveg BUGL, þau verða að velja og hafna. Þau geta ekki tekið við öllum. Þessi stofnun þyrfti að vera svona sex sinnum stærri en hún er í dag.“ Að mati Arnars hefði Dagbjartur þurft að fá stærra teymi til að aðstoða sig við að vinna úr erfiðleikunum.
 
„Hvað ef?“ er spurning sem Arnar glímdi við í langan tíma. „Þetta var erfiðasta spurningin. Hvað ef ég hefði ekki horft á þennan þátt í sjónvarpinu? Hvað ef ég hefði kveikt á þurrkaranum fyrr? Hvað ef ég hefði nú farið upp og talað við hann fyrr? En þegar maður sættir sig við það að þessi spurning skili ekki neinu, að maður geti ekkert gert til að breyta þessu, þá fyrst getur maður haldið áfram með líf sitt.“
 
Eftir fráfall Dagbjarts fór Sandgerðisskóli í gríðarlega mikla vinnu varðandi einelti. „Ég kenni þeim alls ekki um það hvernig fór þó margir haldi að ég geri það. Ég hef oft verið spurður að því af hverju ég sé ennþá með börnin mín í þessum skóla en ég ber engan kala til skólans.“
 
Hann segir skólastjórn hafa staðið sig vel eftir á og að mjög gott starf sé unnið þar í dag. „Það mættu fleiri skólar taka sér það til fyrirmyndar.“
 
Þeim drengjum, sem Dagbjartur nefndi hvað oftast við foreldra sína að gerðu honum lífið erfiðara fyrir, er Arnar heldur ekki reiður. „Þetta voru bara börn sem áttu erfitt. Ég þekki þessa stráka í dag og tala alveg við þá. Ég er á þeirri skoðun að þau börn sem leggja í einelti líði illa annars staðar.“
 
 
Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs