Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Fréttir

Dagar hlutskörpust í útboði flugstöðvarinnar
Fimmtudagur 27. október 2022 kl. 11:53

Dagar hlutskörpust í útboði flugstöðvarinnar

- 30% af valforsendum byggðu á umhverfissjónarmiðum

Nýverið fór fram útboð á ræstingum á Keflavíkurflugvelli og urðu Dagar hf. hlutskörpust í því. Dagar voru stigahæst í gæðamati sem sneri að umhverfisþáttum en valforsendur í útboðinu byggðu að 30 prósentum á umhverfissjónarmiðum. Líklegt má telja að það sé hæsta hlutfall af umhverfisþáttum í valforsendum í útboði sem framkvæmt hefur verið á Íslandi.

Umhverfisþættirnir sem voru metnir sérstaklega voru eldsneytisnotkun og þar með kolefnisspor, umhverfisvæn efnanotkun og ISO 14001 vottun. Dagar voru eina fyrirtækið sem bauð í verkið sem var komið með ISO 14001 vottun. Isavia fékk sína ISO 14001 vottun fyrir um ári síðan.

Public deli
Public deli

Grunnkrafa í útboðsgögnum var að vera með Svansvottun, aukastig voru í boði fyrir þau fyrirtæki sem ganga lengra í umhverfismálum en lágmarkið segir til um. Isavia átti gott samstarf við Umhverfisstofnun í útboðsferlinu, en Umhverfisstofnun staðfesti tölur úr bókhaldi Svansvottunar hjá þeim aðilum sem buðu í verkið. Það á við þá þætti sem snúa að bæði eldsneytisnotkun og umhverfisvænni efnanotkun. Isavia gerir auk þess kröfu um að fyrirtæki sem sjái um ræstingar á Keflavíkurflugvelli fylgi INSTA 800 gæðastaðlinum. Vottaður ráðgjafi hjá EFLU var fenginn til aðstoðar við gerð kröfulýsingar í útboðsgögnunum.

 „Þessar áherslur í útboði Isavia eru í skýru samræmi við metnaðarfulla sjálfbærnistefnu félagsins,“ segir Jófríður Leifsdóttir, deildarstjóri umhirðu og ásýndar hjá Isavia. „Við hjá Isavia höfum sett okkur það markmið að verða kolefnislaus í okkar rekstri árið 2030 og þetta er einn mikilvægur hluti af leið okkar þangað. Við erum að auka sjálfbærni í flugvallarsamfélaginu á Keflavíkurflugvelli og fá alla sem þar vinna með okkur í þá vegferð, því saman náum við árangri.“

„Við fögnum áframhaldandi samstarfi við Isavia,“ segir Pálmar Óli Magnússon, forstjóri Daga. „Hreinlæti og ásýnd er mikilvægur þáttur í upplifun gesta flugvallarins og fékk hann viðurkenningu Alþjóðasamtaka flugvalla (ACI) fyrir hreinlæti á árinu 2021, nokkuð sem við erum afar stolt af. Isavia eru, eins og Dagar, með metnaðarfull markmið í umhverfismálum og er það því okkur sérstakt ánægjuefni að ISO 14001 umhverfisvottun Daga hafi talið í mati fyrirtækisins á þjónustuaðila til framtíðar.“