Fréttir

Bláa Lónið er Umhverfisfyrirtæki ársins 2021 
Bláa Lónið séð úr flygildi Jóns Steinars Sæmundssonar, ljósmyndara.
Föstudagur 8. október 2021 kl. 11:24

Bláa Lónið er Umhverfisfyrirtæki ársins 2021 

Bláa Lónið hlaut verðlaun sem Umhverfisfyrirtæki ársins en þau voru veitt af Samtökum atvinnulífsins við hátíðlega athöfn í Hörpu í vikunni. Það var forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson sem tilkynnti um verðlaunin.   

Verðlaunin eru veitt fyrirtæki sem hefur meðal annars innleitt umhverfisstjórnunarkerfi, aflað fyrir starfsemi sinni og afurðum viðurkenningar. Fyrirtæki sem hefur sjálfbæra nýtingu í stefnu sinni, hefur dregið úr úrgangi og gengið lengra en lög og reglur segja til um til að draga úr áhrifum starfseminnar á umhverfið. 

Bláa Lónið hefur í tæp 30 ár, frá stofnun árið 1992, nýtt jarðsjó, gufu og koltvísýring sem fellur til við framleiðslu á grænni raforku frá nærliggjandi jarðvarmaveri. Það er einstakt á heimsvísu.   

Sjálfbærni er í senn kjarni og uppspretta Bláa Lónsins. Fyrirtækið hefur að leiðarljósi að fjölnýta og fullnýta jarðvarmastrauma í upplifun gesta sem og í framleiðslu á vörum. Bláa Lónið hefur ávallt unnið að því að draga úr sóun og að lágmarka umhverfisspor sitt. Fyrirtækið hefur markað sér skýra stefnu í umhverfismálum með megináherslu á að auka sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda, draga úr plastnotkun og koltvísýringslosun. 

„Metnaðarfull stefnumörkun í umhverfismálum og þátttaka allra starfsmanna er lykillinn að okkar árangri en umhverfismálin varða okkur öll.  Við finnum það einnig að gestir okkar og viðskiptavinir kunna afar vel að meta þessar áherslur. Það er okkur því mikill heiður að hljóta þessi verðlaun og eru þau mikil hvatning til áframhaldandi góðra verka á sviði umhverfismála og nýtingu náttúruauðlinda með sjálfbæra þróun að leiðarljósi“, sagði Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa Lónsins, við afhendingu verðlaunanna.  

Stjórnkerfi Bláa Lónsins ISO vottað 

Bláa Lónið hefur kolefnisjafnað allan rekstur sinn frá 2019 með ræktun örþörunga og plöntun trjáa, m.t.t. eldsneytisnotkunar, orkunotkunar, rútuferða starfsfólks, meðhöndlunar úrgangs og flugferða. Kolefnisbókhald fyrirtækisins er vaktað og plastspor þess kortlagt til að keyra áfram stöðugar umbætur í rekstri og draga úr áhrifum þess á umhverfið. 

„Bláa Lónið hefur fengið stjórnkerfi sitt vottað í samræmi við alþjóðlega viðurkennda gæðastjórnunarstaðalinn ISO 9001, umhverfisstjórnunarstaðalinn ISO14001, öryggis- og heilsustjórnunarstaðalinn ISO 45001 sem og IST 85:2017 jafnlaunastaðalinn. Þetta er hluti af vegferð okkar, að efla fyrirtækið með það að leiðarljósi að byggja upp örugga og gæðadrifna ferðaþjónustu á Íslandi og vöruframboð með ríka áherslu á umhverfisvitund, verndun og virðingu gagnvart náttúruauðlindum landsins”, segir Grímur. 

Bláa Lónið er löngu orðið heimsþekkt heilsulind, vörumerki þess, Blue Lagoon Iceland, er eitt þekktasta vörumerki landsins og jarðsjórinn sem myndar Bláa Lónið er á lista National Geographic sem eitt af 25 undrum veraldar.   

Bláa Lónið er í samstarfi við Reykjanes Unesco Global Geopark (RGP), Jarðvang, og sveitarfélögin á Suðurnesjum um að styrkja Reykjanesið sem áfangastað, stuðla að sjálfbærri nýtingu í sátt við náttúru, bæta þekkingu, viðhorf og verndarstöðu jarðminja. 

Á myndinni eru frá hægri, Fannar Jónsson, gæða- og umhverfisstjóri Bláa Lónsins, Ása Brynjólfsdóttir, rannsókna- og þróunarstjóri Bláa Lónsins og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA.