Max Norhern Light
Max Norhern Light

Fréttir

Bangsanum Blæ var komið til bjargar í Grindavík
Fimmtudagur 10. október 2019 kl. 16:03

Bangsanum Blæ var komið til bjargar í Grindavík

Áhöfnin á TF-GRO, þyrlu Landhelgisgæslunnar, tók þátt í skemmtilegu samfélagsverkefni fyrr í dag þegar bangsanum Blæ var komið til bjargar og hann fluttur á leikskólann Laut í Grindavík. Þar biðu hans leiksskólabörn sem voru búin að fræðast um raunir Blæs sem lenti í háska á leið sinni til Grindavíkur frá Ástralíu. Þyrlan kom Blæ til bjargar og flutti á áfangastað. Frá þessu er greint á fésbókarsíðu Landhelgisgæslunnar.

Um er að ræða verkefni sem Barnaheill stendur fyrir en bangsanum er ætlað að kenna börnunum vináttu og virðingu. Það var ekki annað að sjá en að leikskólabörnin og starfsmenn leikskólans væru himinlifandi með heimsóknina. Blær fékk plástur hjá áhöfninni á leiðinni og hlaut höfðinglegar móttökur við komuna til Grindavíkur.

Lögreglan á Suðurnesjum og björgunarsveitin í Grindavík voru fengin á staðinn til að tryggja svæðið og aðstoða.

Áhöfnin á TF-GRO bar Blæ á börum inn á leiksskólalóðina og börnin fengu svo að skoða þyrluna og búnað hennar áður en var flogið aftur til Reykjavíkur.

Í áhöfn TF-GRO voru þeir Walter Ehrat, flugstjóri, Andri Jóhannesson, flugmaður, Magnús Pálmar Jónsson, sigmaður og Tómas Vilhjálmsson, spilmaður.

Meðfylgjandi myndir tók Guðmundur Birkir Agnarsson og eru þær birtar með færslu Landhelgisgæslunnar.