Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Fréttir

Baldvin Njálsson verður eitt glæsilegasta fiskiskip flotans
Tölvuteiknuð mynd af þessu glæsilega skipi.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 26. nóvember 2020 kl. 07:24

Baldvin Njálsson verður eitt glæsilegasta fiskiskip flotans

Stefnt að sjósetningu frystitogarans í febrúar

Smíði á nýjum Baldvini Njálssyni GK fyrir Nesfisk í Garði gengur vel hjá skipasmíðastöðinni Armon í Vigo á Spáni. Vænst er til að skipið verði komið til Íslands fullbúið og tilbúið til veiða haustið 2021. Frystitogarinn Baldvin Njálsson verður eitt af glæsilegri skipum í íslenska fiskiskipaflotanum.

Hann verður rúmlega 66 metra langur og leysir af hólmi eldra skip með sama nafni sem er að koma til ára sinna og var smíðað í sömu skipasmíðastöð árið 1991 fyrir norskt félag. Nýja skipið verður fimmtán metrar á breidd og með 3.000 kW Wärtsilä aðalvél. Skrúfan verður fimm metrar í ummál og verður nýr Baldvin Njálsson í hópi sparneytnustu skipa í þessum flokki, segir í Fiskifréttum.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Um borð í skipinu verða flök og hausar fryst. Í því verður vöruhótel með þjarka sem tegundar- og stærðarflokkar og beinir afurðum að sjálfvirkum pökkunarbúnaði. Bretta-staflari staflar pökkuðum afurðum tilbúnum til löndunar og útflutnings. Á millidekkinu verður flökunarvél og sjálfvirkur frystibúnaður. Lestin er á tveimur hæðum og samtals er rúmmál hennar 1.600 rúmmetrar.

„Skrokkurinn er að taka á sig mynd og skipasmíðastöðin miðar við það að sjósetja skipið í lok febrúar. Vinnan við smíðina hefur gengið mjög hratt og vel og allt eiginlega á áætlun. Þó komu upp örlítil vandamál í síðustu viku þegar starfsmaður í skipasmíðastöðinni greindist með kórónuvírusinn sem hefur aðeins hægt á ákveðnum deildum innan fyrirtækisins,“ segir Sævar Birgisson hjá Skipasýn sem hannaði skipið.