Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Fréttir

Bæjarstjórn Voga rökstyður höfnun á framkvæmdaleyfi Suðurnesjalínu 2
Suðurnesjalína með Keili í baksýn. VF-mynd: Hilmar Bragi
Föstudagur 9. apríl 2021 kl. 06:52

Bæjarstjórn Voga rökstyður höfnun á framkvæmdaleyfi Suðurnesjalínu 2

Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga hefur afgreitt erindi Landsnets hf., umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2. Umsókninni er hafnað og hún rökstudd í ítarlegri greinargerð.

Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga hefur kynnt sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og telur að framkvæmdin sé sú sama og lýst er er í matsskýrslu. Bæjarstjórn fellst á þá niðurstöðu Skipulagsstofnunar að matsskýrsla Landsnets um Suðurnesjalínu 2 uppfylli skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum. Þá hefur bæjarstjórn kynnt sér fyrirliggjandi umsókn, meðfylgjandi gögn og álit Skipulagsstofnunar frá 22. apríl 2020 um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Bæjarstjórn hefur jafnframt kynnt sér umsögn Landslaga um erindið, dags. 16. febrúar 2021, og samþykkir hana og gerir að sinni umsögn um málið auk eftirfarandi afgreiðslu og rökstuðnings.

Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga hafnar umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi fyrir 220 kV Suðurnesjalínu 2, loftlínu meðfram núverandi Suðurnesjalínu 1, í Sveitarfélaginu Vogum með vísan til framangreindrar umsagnar Landslaga, dags. 16. febrúar 2021, og eftirfarandi rökstuðnings og sjónarmiða sem eru að mestu leyti í samræmi við rökstuðning sem fram kemur í niðurstöðukafla álits Skipulagsstofnunar.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Suðurnesjalína 2 sé umfangsmikið mannvirki sem liggi yfir langan veg, þar sem landslag sé opið og víðsýnt, náttúrufar njóti verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd auk þess sem það hefur hlotið alþjóðlega viðurkenningu og vottun UNESCO vegna jarðfræðilegrar sérstöðu. Línan liggi nálægt einum fjölfarnasta þjóðvegi landsins, sem jafnframt sé gátt erlendra ferðamanna inn í landið og fari um og liggi nærri náttúrusvæðum sem séu vinsæl útivistarsvæði í grennd við þéttbýlasta svæði landsins. Við þær aðstæður, telur sveitarfélagið ekki forsvaranlegt að samþykkja nýja loftlínu. Margt mæli með því að leggja línuna í jarðstreng alla leið innan sveitarfélagsins, skv. valkosti B í umhverfismatinu, meðfram Reykjanesbraut. Sveitarfélagið hafi áður bent á það en sá valkostur sé að auki í samræmi við ákvæði aðalskipulags sveitarfélagsins. Ávinningur af þeirri leið, með tilliti til umhverfisáhrifa samanborið við loftlínuvalkosti, felist í minni áhrifum á landslag og ásýnd, ferðaþjónustu og útivist, vistgerðir og gróður og fuglalíf.

Aðalvalkostur Landsnets, sem sótt er um, þ.e. lagning loftlínu samkvæmt valkosti C, hafi mest neikvæð áhrif allra skoðaðra valkosta í umhverfismati á framangreinda þætti. Þá er tekið undir þau sjónarmið Skipulagsstofnunar að ýmislegt, tengt byggða- og atvinnuþróun á Suðurnesjum til framtíðar, mæli frekar með því að línan verði lögð í jörð.

Landsnet hafi bent á kostnaðarmun loftlína og jarðstrengja og þær takmarkanir sem séu á heildarlengd jarðstrengja í flutningskerfinu á suðvesturhorninu sem rök fyrir því að velja loftlínu við uppbyggingu Suðurnesjalínu 2. Þá hafi Landsnet vísað til þess að aðstæður á framkvæmdasvæði Suðurnesjalínu 2 falli ekki nema að litlu leyti að þeim viðmiðum sem sett hafa verið í stefnu stjórnvalda um lagningu jarðstrengja í flutningskerfi raforku. Bæjarstjórn telur að ekki sé nægilegt að horfa eingöngu til kostnaðarmunar milli ólíkra útfærslna á lagningu línunnar, þar sem ólíkir valkostir um legu línunnar hafi í för með sér mismunandi möguleika og takmarkanir á annarri landnýtingu og þróun byggðar og atvinnulífs á nærliggjandi svæðum sem rétt sé að taka með í reikninginn þegar horft sé á kostnað við lagningu línunnar.

Afstaða bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Voga ætti ekki að koma Landsneti hf. á óvart, enda hefur hún verið opinber allt frá árinu 2008. Áhersla bæjarstjórnar á lagningu jarðstrengs kemur m.a. fram í samkomulagi sem Landsnet hf. gerði við Sveitarfélagið Voga 17. október 2008. Í samkomulaginu var fjallað um að jarðstreng ætti að skoða ef kostnaður við lagningu hans breyttist verulega. Er það mat bæjarstjórnar að sú breyting, sem orðið hefur á kostnaði, sé veruleg og jarðstrengur út frá þeim forsendum því raunhæfur valkostur. Afstaða núverandi bæjarstjórnar hefur komið fram í verkefnaráði á vegum Landsnets með hagsmunaaðilum verkefnisins, sem og í umsögn bæjarstjórnar um valkostina og bókunum þar að lútandi.

Bent sé á að í þingsályktun nr. 11/144, um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína, séu sett fram viðmið sem réttlæti að dýrari kostur sé valinn og línur lagðar í jarðstreng í heild eða hluta. Umrædd lína sé fyrirhuguð í næsta nágrenni við vaxandi þéttbýli í Vogum. Hún sé fyrirhuguð um svæði þar sem stjórnvöld hafa til athugunar að byggja upp nýjan flugvöll og fari um svæði sem njóti verndar vegna náttúrufars.

Í ljósi framangreinds sé það niðurstaða bæjarstjórnar að umhverfismat Suðurnesjalínu 2 sýni að lagning línunnar sem jarðstrengs sé best til þess fallin að draga eins og kostur er úr neikvæðum áhrifum framkvæmdarinnar, sbr. markmiðsákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum. Æskilegasti framkvæmdakosturinn sé því valkostur B meðfram Reykjanesbraut en ekki valkostur C sem sótt hefur verið um. Ábendingar Landsnets um villur í mati Skipulagsstofnunar um áhrif jarðskjálfta á jarðstreng og ný gögn um að loftlína sé öruggari valkostur en jarðstrengur í gagnvart „höggunarhreyfingum“ breyta ekki niðurstöðu bæjarstjórnar, segir í afgreiðslu bæjarstjórnar sem samþykkt var samhljóða með sjö atkvæðum.