Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Fréttir

Allt að 125 ný störf fyrir hvern mánuð fram á mitt ár 2021 á Keflavíkurflugvelli
Þriðjudagur 7. apríl 2020 kl. 12:45

Allt að 125 ný störf fyrir hvern mánuð fram á mitt ár 2021 á Keflavíkurflugvelli

Í samræmi við heimildir í fjáraukalögum fyrir árið 2020 hefur fjármála- og efnahagsráðherra ákveðið að auka við hlutafé Isavia ohf. um 4 milljarða króna með því skilyrði að félagið ráðist í innviðaverkefni á Keflavíkurflugvelli strax á þessu ári. Greint er frá þessu á vef Stjórnarráðsins.

Áætlaður fjöldi nýrra starfa sem verður til við þessar framkvæmdir nemur um 50-125 störfum fyrir hvern mánuð fram á mitt ár 2021. Þá mun verða til fjöldi afleiddra verkefna á Suðurnesjunum sem tengjast umfangsmiklum framkvæmdum á Keflavíkurflugvelli. 

Public deli
Public deli

Annars vegar er um að ræða verkefni sem fyrirhuguð voru á yfirstandandi ári en hefði þurft að fresta vegna þess tekjufalls sem félagið hefur orðið fyrir og hins vegar flýtingu á öðrum mannaflafrekum framkvæmdum sem fyrirhugaðar voru á árunum eftir 2023.

Ákvörðunin er í samræmi við aðgerðir stjórnvalda við að auka við fjárfestingar til að vinna gegn samdrætti í hagkerfinu með arðbærum fjárfestingum sem auka eftirspurn eftir vinnuafli.

„Það er skynsamlegt að halda áfram framkvæmdum á flugvellinum til að standa vörð um samkeppnishæfni Íslands þegar kemur að ferðamennsku.“

„Síðustu daga höfum við séð okkar svörtustu spá um atvinnuleysi raungerast sem kallar á hraða en jafnframt upplýsta ákvarðanatöku“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. „Isavia hefur síðustu árin unnið mikla undirbúningsvinnu hvað varðar framtíðaruppbyggingu á Keflavíkurflugvelli sem mun styðja við millilandaflug til og frá Íslandi til framtíðar. Það er skynsamlegt að halda áfram framkvæmdum á flugvellinum til að standa vörð um samkeppnishæfni Íslands þegar kemur að ferðamennsku. Þess vegna höfum við tekið ákvörðun um að leggja félaginu til aukið hlutafé til að það fái svigrúm til að ráðast í verkefni sem hefði að öðrum kosti verið frestað í ljósi aðstæðna.“

„Innspýtingin mun einnig hafa jákvæð áhrif á Suðurnesjunum því margir sem þar búa starfa hjá okkur auk þess að til verður fjöldi afleiddra verkefna á svæðinu.“

„Ákvörðun fjármála- og efnahagsráðuneytisins um að styðja við félagið gerir okkur kleift að fara í verkefni sem við hefðum annars ekki haft svigrúm til á þessari stundu“ segir Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia. „Hún býr ekki eingöngu til ný störf í framkvæmdunum sjálfum heldur getum við vegna hennar staðið vörð um fjölda starfa innan Isavia. Innspýtingin mun einnig hafa jákvæð áhrif á Suðurnesjunum því margir sem þar búa starfa hjá okkur auk þess að til verður fjöldi afleiddra verkefna á svæðinu. Þetta er afar mikilvægt fyrir Isavia því það mun hjálpa okkur við að koma sterkari út úr þessum erfiðu tímum og gera flugvöllinn enn samkeppnishæfari til framtíðar.“

Af þessum 4 milljörðum króna fer um helmingur til verkefna sem tengjast hönnun og það sem eftir stendur verður nýtt í framkvæmdir. Miðað er við að viðbótarfjármögnunin muni nýtast breiðum hópi fyrirtækja.

Þá mun þessi aðgerð opna fyrir möguleika á frekari framkvæmdum á Keflavíkurflugvelli, fyrr en ella, upp á ríflega 3 milljarða króna. Heildarumfang fjárfestinga sem tengjast þessari hlutafjáraukningu getur því numið ríflega 7 milljörðum króna yfir tveggja ára tímabil.