Fréttir

Álag á Keflavíkurflugvelli fyrir jól og áramót
Fimmtudagur 17. desember 2020 kl. 12:14

Álag á Keflavíkurflugvelli fyrir jól og áramót

Isavia vekur athygli á því að álag getur skapast á Keflavíkurflugvelli í aðdraganda jóla og kringum áramót. Búist er við að fleiri ferðamann fari þar um en að jafnaði á síðustu vikum og mánuðum. Eru farþegar á leið úr landi tiltekna álagsdaga, þ.e. 18. og 19. desember og 2. og 3. janúar, hvattir til að mæta í innritun og öryggisleit 3 klukkustundum fyrir brottför. Það yrði gert til að koma til móts við þær aðstæður sem annars gætu skapast og þannig að afgreiðsla gangi eins vel og kostur er, segir í tilkynningu frá Isavia.

Farþegar eru einnig hvattir til að gæta vel að almennum sóttvörnum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og vera með grímur. Standa með handspritti má finna víða í flugstöðinni. Þar er einnig hæg að kaupa spritt og sóttvarnargrímur í fríhafnarverslun og hjá afgreiðslu Airport Parking.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Til að hraða ferðalagi og fækka snertingum sem mest bendum við farþegum á að skrá sig í flug á netinu áður en haldið er á flugvöllinn, sé þess kostur. Þá hvetjum við farþega einnig til að nota sjálfsafgreiðslustöðvar í brottfararsal þar sem það er hægt. Þar geta þeir innritað sig og farangurinn í flug.

Þá er komufarþegum bent á einhverja daga um hátíðar kann að myndist bið við skimunarbása Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins á flugvellinum. Komi til þess verður farþegum hleypt í hópum úr flugvélum inn í flugstöðina til að stýra álagi.

Í þeim tilvikum þar sem farþegar eru að fara um ytri landamæri Schengen-svæðisins og flugvél er af þeirri stærð að hún kemst ekki að landgöngubrú við Schengen-landamærahliðin verður notast við rútur til að flytja farþega í og úr flugvél. Vegna sóttvarnareglna fer takmarkaður fjöldi fólks í hverja rútu og þær sótthreinsaðar milli ferða.

Fólk er beðið um að nota grímur á farþegasvæðum í flugstöðinni. Þetta á bæði við um farþega og starfsfólk.

Þjónusta verslunar- og veitingaaðila í flugstöðinni hefur verið skert síðustu vikur og mánuði vegna færri flugferða sökum Covid-19 faraldursins. Aukið verður við þjónustu þá daga sem mest verður um að vera í Flugstöð Leifs Eiríkssonar um hátíðarnar og má finna nánari upplýsingar um það á vef Keflavíkurflugvallar.

Almannavarnir vilja beina því til fólks, sem á von á ættingjum og vinum til landsins fyrir og um hátíðarnar, að sækja ekki komufarþega á Keflavíkurflugvöll. Við komuna til landsins er fólk í sóttkví fram að seinni sýnatöku, nema það framvísi gildu vottorði um að það hafi fengið Covid-19 og náð bata. Sýnataka er gjaldfrjáls til og með 31. janúar 2021. Almannavarnir beina því til farþega við komuna til landsins að þeir taki rútu, leigubíl eða keyri sjálfir á áfangastað. Nánari upplýsingar um leiðbeiningar Almannavarna og heilbrigðisyfirvalda vegna ferðalaga til og frá Íslandi má finna hér: https://www.covid.is/undirflokkar/ferdalog-til-og-a-islandi