Stilling Bílaþjónusta Suðurnesja
Stilling Bílaþjónusta Suðurnesja

Fréttir

Ætlar sjálf að verða fósturforeldri
Sunnudagur 3. maí 2015 kl. 10:00

Ætlar sjálf að verða fósturforeldri

Árný Inga, bráðum tvítug, segir fósturforeldra geta bætt líf svo margra.

Árný Inga Magnúsdóttir er að verða tvítug og hefur í sex ár verið í fóstri hjá Karen Jónsdóttur og Vilhjálmi Einarssyni í Akurhúsum í Garði. Hálf taílensk og ættuð frá Akureyri. „Ég kom hingað því ég bjó í rauninni ein. Pabbi minn var aldrei heima og það var ákveðið að ég færi hingað. Aðrir ættingjar bjuggu víðs fjarri,“ segir Árný Inga. Henni líkar mjög vel á heimilinu, finnst það í raun æðislegt. „Það breytti lífi mínu og hjálpaði mér mjög mikið. Staðsetningin, fólkið og allt.“ 
 
Árný Inga stundar, eins og Thelma, nám í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. „Ég er á 2. önn á sjúkraliðabraut. Mig langaði að klára stúdentinn og leist vel á þessa braut. Ég mun starfa á elliheimili í Reykjavík í sumar svo þegar ég hef lokið náminu í FS langar mig að vinna á Nesvöllum. Svo kannski á sjúkrahúsi síðar ef ég læri meira í þessu.“ 
 
 
Árný Inga ásamt Thelmu fóstursystur sinni í fjárhúsinu. 
 
Eina fólkið sem ég á að
Aðspurð segir Árný að fjölskyldulífið á fósturheimilinu sé bara ósköp venjulegt. Hún megi vera þar eins lengi og hún vill þótt yfirleitt sé miðað við 20 ára. „Ég er reyndar að fara að flytja bráðum hér innanbæjar í Garði. Ég verð örugglega samt alltaf í kvöldmat hérna. Ég veit ekki hvar ég væri í raun án Villa og Karenar. Þau hafa kennt mér rétt og rangt eins og aðrir foreldrar. Þau eru stundum ströng en þannig á það líka að vera. Karen er bara svona ekta mamma og við höfum líka kynnst börnunum þeirra og barnabörnum. Það skiptir mjög miklu að finnast maður vera ein af fjölskyldunni. Þau eru eina fólkið sem ég í raun á að.“ 
 
 
Falleg náttúra og víðátta í umhverfi Akurhúsa. 
 
Hægt að bæta líf svo margra
Árný Inga mælir með því að fólk gerist fósturforeldrar því það geti bætt líf svo margra, andlega og líkamlega. „Það er bara frábært að fólk skuli vilja gera þetta og það er allt gott við fósturheimili. Ég væri líklega bara úti á götu að ráfa eitthvað ef ég hefði ekki komið hingað. Ég hef oft sagt það við Karen að ég ætla að verða fósturmamma þegar ég verð fullorðin. Það hafa allir gott af því að takast á við svona og þroskast“.  
 
VF/Olga Björt
VF/Myndir Hilmar Bragi og Olga Björt
 
Ljósmyndastofa Oddgeirs - Barna
Ljósmyndastofa Oddgeirs - Barna