Nettó
Nettó

Fréttir

Á teikniborðinu á Ljósanótt
Fimmtudagur 30. ágúst 2018 kl. 13:57

Á teikniborðinu á Ljósanótt

- Jees arkitektar kynna framsækna hönnun og borgarskipulag.

Jees arkitektar sem er framsækið hönnunarhús í Keflavík býður gestum Ljósanætur til samtals um hönnun og hvað það er sem gerir hana góða á sýningunni Á teikniborðinu sem opnar kl. 18:00 í dag.
 
Jón Stefán Einarsson arkitekt mun ræða við gesti á sýningunni en að hans sögn er mikilvægt að íbúar séu meðvitaðir um hvernig við mótum umhverfi okkar með skipulagi og hönnun.

Umhverfi okkar skiptir máli og það er mikilvægt að við höfum skoðun á því. Hvernig mótum við byggðarlög með skipulagi og hvernig breytum við nærumhverfi okkar með hönnun bygginga? Þá höfum við áhrif á vellíðan fólks með innanhúss- og langslagshönnun svo það má með sanni segja að hönnun snúist aðallega um fólk segir Jón Stefán sem um þessar mundir opnar glæsilega skrifstofu á efri hæð Hafnargötu 35.
 
 
Jón Stefán hefur víða komið að skipulagi í Reykjanesbæ að undanförnu og m.a. hannað deiliskipulag fyrir miðbæinn við Duus og Gróf, framtíðartillögur að nýtingu Fischershússreitsins sem og byggingar í sem breyta munu ásýnd og virkni miðbæjarins. Þá hefur stofan unnið greinargerð að verndun og skipulagi í Keflavíkurþorpinu svokallaða en þar er gert ráð fyrir uppbyggingu í tengslum við friðun og fornleifauppgröft á Keflavíkurtúni. Markmiðið er að auka virkni svæðisins svo íbúar geti notið þess betur.
 
Slík verkefni eru áhugaverð því þau gefa okkur tækifæri til þess að kynnast sögu okkar með endurgerð húsa og varðveislu heildarmyndar. Ef það er vel gert getur það aukið lífsgæði bæjarbúa, stutt við ferðaþjónustu, verslun og þjónustu og síðast en ekki síst varðveitt mikilvægan menningararf.
 
Kynnt verða fjölbreytt verkefni Jees arkitekta á sýningunni og m.a. sýnt nýtt skipulag á Ásbrú og við Hafnargötu. Skoða má stór líkön og myndbönd sem sýna hönnunarferlið og tillögur sem nú liggja fyrir.
 
Sýningin verður opin fimmtudag 30. ágúst 18 - 22 og laugardaginn 1. september kl. 13 - 16.
 
 
Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs