Fréttir

600 ný tímabundin störf hjá Reykjanesbæ
Föstudagur 15. maí 2020 kl. 10:19

600 ný tímabundin störf hjá Reykjanesbæ

Rúmlega 300 ný sumarstörf fyrir námsmenn í sumar

Hluti af aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar vegna stöðunnar í atvinnumálum er að verja um 2,2 milljörðum króna í að standa straum af átaksverkefni með sveitarfélögunum í landinu og opinberum stofnunum. Markmiðið er að fjölga tímabundnum störfum fyrir námsmenn í sumar. Reykjanesbær fékk í vikunni vilyrði fyrir 307 stöðugildum í gegnum átakið og samþykkti bæjarráð í morgun að greiða þær 78 milljónir sem upp á vantar til að ráða þann fjölda námsmanna.

Síðastliðna daga hafa starfsmenn Reykjanesbæjar unnið ötullega að undirbúningi þessa verkefnis. Öllum sviðum bæjarins var falið að finna afmörkuð verkefni sem námsmenn á svæðinu gætu sinnt í sumar. Um er að ræð tveggja mánaða ráðningartímabil og þurfa námsmenn að vera 18 ára á árinu og á milli anna, þ.e. eru að koma úr námi og eru aftur skráðir í nám í haust.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Störfin sem verða í boði eru mjög fjölbreytt; leiðbeinendur í listasmiðju, skráning verkferla í gæðakerfi, setja upp Harry Potter sýningu á bókasafninu, skráning ljósmynda, aðstoð við þjálfun, skórækt og svo mætti lengi telja. Öll störfin verða auglýst á vef Reykjanesbæjar og eru námsmenn hvattir til að fylgjast með og sækja um þegar atvinnuauglýsingarnar byrja að flæða inn á næstu dögum.

Ungmenni sem eru fædd árið 2003 fá einnig möguleika á vinnu

Þar sem 18 ára og eldri eiga sér skjól í úrræði stjórnvalda og árgangar 2004-2006 hafa möguleika á að sækja um í vinnuskóla Reykjanesbæjar stendur 2003 árgangurinn einn eftir.

Bæjarráð samþykkti því í morgun að bjóða ungmennum fæddum árið 2003 til starfa í vinnuskóla Reykjanesbæjar í sumar og ráðstafa allt að 75 milljónum króna til að standa undir kostnaðarauka vinnuskólans vegna þessa. Umsóknir fyrir ungmenni fædd 2003 eru nú aðgengilegar á vinnuskoli.reykjanesbaer.is

Sérstak átak fyrir þá sem hafa verið lengur í atvinnuleit

Þessu til viðbótar hefur bæjarstjórn samþykkt að ráðstafa allt að 50 milljónum í sérstakt átak í gegnum úrræði Vinnumálastofnunar. Ráðningarstyrk sem ætti að geta skapað allt að 80 tímabundin störf fyrir þá sem hafa verið lengur í atvinnuleit. Frekari kynning á þessu verkefni verður á næstu dögum.