Fréttir

300 ný ársverk skapist á næstu þremur árum á öryggissvæði Keflavíkurflugvallar
Verkefnin sem um ræðir felast að mestu í viðhaldi og breytingum á flugskýli 831 á Keflavíkurflugvelli, byggingu þvottastöðvar fyrir flugvélar við flugskýlið og viðhaldi og endurbótum á flugvélastæðum, ljósakerfum fyrir flugvélastæði og akstursbrautum flugvéla á öryggissvæðinu á flugvellinum.
Ritstjórn
Ritstjórn skrifar
föstudaginn 23. ágúst 2019 kl. 09:35

300 ný ársverk skapist á næstu þremur árum á öryggissvæði Keflavíkurflugvallar

Stjórnvöld setja aukið fjármagn í verkefni á Keflavíkurflugvelli.

„Mikilvægt að njóta stuðnings stjórnvalda núna,” segir forstöðumaður Vinnumálastofnunnar á Suðurnesjum.

Stjórnvöld hafa samþykkt að veita aukið fjármagn í verkefni á öryggissvæði Keflavíkurflugvallar vegna þeirrar stöðu sem skapaðist á vinnumarki í kjölfar gjaldþrots WOW air. Verkefnin snúa að nauðsynlegu viðhaldi og endurbótum en framkvæmdir munu jafnframt nýtast í borgaralegum tilgangi.

Áætlað er að allar framkvæmdirnar sem ákveðið hefur verið að fara í geti skapað allt að þrjú hundruð ný ársverk á tímabilinu 2020-2023.

Hildur Jakobína Gísladóttir, forstöðumaður Vinnumálastofnunnar á Suðurnesjunum fagnar aðkomu ríkisstjórnarinnar og undirstrikar hversu mikilvægt sé að njóta stuðnings stjórnvalda undir þessum kringumstæðum. Þetta kemur fram í tilkynningu til fjölmiðla.

„Unnið hefur verið markvisst í aðgerðum í kjölfar gjaldþrots WOW en þó hefur gengið hægar að koma fólki í vinnu en talið var í upphafi. Ríkisstjórnin bauð fram fjármagn í námsúrræði á Suðurnesin sem kemur sér vel fyrir atvinnulausa á svæðinu sem geta þá aflað sér þekkingar sem nýtist vel í atvinnuleit. Að auki var stofnunin styrkt með fjármagni sem hjálpar okkur við að sinna þeim fjölda sem er skráður á atvinnuleysisskrá,” segir Hildur Jakobína.

Verkefnin sem um ræðir felast að mestu í viðhaldi og breytingum á flugskýli 831 á Keflavíkurflugvelli, byggingu þvottastöðvar fyrir flugvélar við flugskýlið og viðhaldi og endurbótum á flugvélastæðum, ljósakerfum fyrir flugvélastæði og akstursbrautum flugvéla á öryggissvæðinu á flugvellinum.

„Þessi 300 ársverk sem gert er ráð fyrir að skapist í kringum framkvæmdir á öryggissvæði NATO eru því okkur afar dýrmæt. Atvinnuleysi á Suðurnesjum var 5,9% í júlí meðan að meðaltals atvinnuleysi á landinu var 3,4%. Það er því ljóst að við þurfum á öllum störfum að halda fyrir íbúa þessa svæðis. Það er ómetanlegt hversu vel ríkisvaldið brást við í vor við óskum okkar og bindum við miklar vonir við að framhald verði á góðu samstarfi í haust,” segir Berglind Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Suðurnesjunum.

Eins og áður segir er áætlað að framkvæmdartími sé um tvö ár og heildarfjárhæð um þrír milljarðar íslenskra króna. Verkefnin eru fjármögnuð af bandaríska hernum sem komið hefur að fjármögnun nauðsynlegra viðhaldsverkefna og endurbóta á öryggissvæðinu síðustu ár.

Auk þessa eru önnur verkefni í undirbúningi svo sem stækkun á núverandi flughlaði fyrir loftför með hættulegan farm, með tilheyrandi ljósabúnaði og akstursbraut. Flughlaðinu verður breytt í flugvélastæði fyrir almennt herflug, en einkum og sér í lagi fyrir eldneytis- og flutningaflugvélar, þar sem önnur stæði eru í dag að mestu í borgaralegri notkun. Þá er unnið að undirbúningi að byggingu grunns með tilheyrandi rafmagns-, vatns-, ljósleiðara-, síma- og frárennslislögnum fyrir gistiaðstöðu. Áætlaður framkvæmdakostnaður þessara þriggja verkefna er um sex milljarðar íslenskra króna.

Íslenska ríkið mun einnig leggja aukið fjármagn til viðhalds og uppbyggingar á öryggissvæðinu en þar er nú gistiaðstaða fyrir 200 einstaklinga og stendur til að fjölga í rými fyrir 500 manns. Útboð verður auglýst í lok þessa árs eða byrjun næsta, segir jafnframt í tilkynningunni.

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs