Stuðlaberg Pósthússtræti

Aðsent

Vilja tryggja heyrnarlausum jafnrétti til náms
Fimmtudagur 21. júní 2018 kl. 09:18

Vilja tryggja heyrnarlausum jafnrétti til náms

Málnefnd um íslenskt táknmál hvetur ríki og sveitarfélög til að tryggja heyrnarlausum börnum á Íslandi jafnrétti til náms með námsefni við hæfi og táknmálstúlkun á öllum skólastigum. Mikilvægt er að þeir aðilar er koma að menntun og táknmálsnámi heyrnarlausra leita allra leiða til lausna er leiða til góðs fyrir nám og framtíðarmöguleika heyrnarlausra í samfélaginu.
Málnefnd um íslenskt táknmál hefur lokið starfsvetrinum 2017 - 2018 og sendir meðfylgjandi greinargerð til fróðleiks. 


Mennta- og menningarmálaráðherra skipar Málnefnd um íslenska táknmálið til fjögurra ára í senn í samræmi við 7. gr. laga nr. 61 frá 7. júní 2011 um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls.
Málnefnd um íslenskt táknmál er m.a. ætlað að vera stjórnvöldum til ráðuneytis um hvað eina er varðar íslenskt táknmál, til að mynda skal leita umsagnar málnefndarinnar áður en settar eru reglugerðir eða annars konar fyrirmæli um íslenskt táknmál að svo miklu leyti sem einstök atriði heyra ekki undir aðra samkvæmt öðrum lögum. Um málstefnu og stöðu íslensks táknmáls skal leitað samvinnu við málnefnd um íslenskt táknmál, sbr. 7. gr. 

Málnefnd um íslenska táknmálið er þannig skipuð, tímabilið 1. maí 2017 til 30. apríl 2020:
Bryndís Guðmundsdóttir, formaður, 
Sigríður Sigurjónsdóttir, varaformaður 
Heiðdís Dögg Eiríksdóttir, 
Hjördís Anna Haraldsdóttir
 og Rannveig Sverrisdóttir.

Verkefni nefndarinnar, síðasta starfsár, hafa helst beinst að því að benda stjórnvöldum á þegar lög nr. 61/2011 sýna sig ekki í framkvæmd, sérstaklega m.t.t. máluppeldis barna. Á síðastliðnum vetri hefur verið lögð áhersla á viðhorfastýringu og vitundarvakningu um íslenskt táknmál, auk þess að meta umhverfi og aðstæður barna sem hafa íslenska táknmálið að móðurmáli. Á sama tíma að stuðla að auknu samstarfi við þá aðila er koma að menntun, menningu og táknmáli heyrnarlausra. Framlag mennta- og menningarmálaráðuneytis var aukið til nefndarinnar árið 2017 til samræmis við framlag til íslenskrar málnefndar. Því var unnt að fastráða starfsmann í 20% hlutastarf sem vann með nefndinni. Tveir fulltrúar málnefndarinnar sóttu fund norrænna málnefnda en þema fundar norrænu málnefndanna að þessu sinni var ráðgjöf og upplýsingar, þ.m.t. málfarsráðgjöf.

Vakin var athygli á íslenska táknmálinu með ýmsum hætti í tengslum við dag íslenska táknmálsins þann 11. febrúar m.a. með samstarfi við RÚV. Samstarfið við RÚV var mikilvægt skref að því markmiði að auka sýnileika íslenska táknmálsins og er nauðsynlegt að á því verði framhald. Næsta vetur verður haldið áfram að óska eftir heimsóknum til málnefndarinnar af aðilum sem stýra námsframboði, túlkaþjónustu og námsefni fyrir heyrnarlausa. Markmið nefndarinnar er að þeir aðilar sem koma að menntun og táknmálsnámi heyrnarlausra leiti allra leiða til lausna sem leiða til góðs fyrir stöðu heyrnarlausra í samfélaginu. Það verði betur gert með samstarfi allra hlutaðeigandi, þrátt fyrir að stöðugt þurfi að vera á varðbergi fyrir því að íslenska táknmálið fái þann sess sem því ber í íslensku þjóðfélagi.