Viðreisn
Viðreisn

Aðsent

Við þurfum betur launuð störf!
Þriðjudagur 8. september 2015 kl. 13:15

Við þurfum betur launuð störf!

– bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn Reykjanesbæjar skrifa

Eftir erfið atvinnuár hér í Reykjanesbæ þar sem atvinnuleysi fór hæst á landinu í kringum brotthvarf varnarliðsins og efnahagshrunið, reynist nú atvinnuleysi hið minnsta í 20 ár. Skyldum við þá ekki ætla að skatttekjur aukist í bænum okkar? Nei, því miður er staðan enn sú að skatttekjur bæjarins hafa nánast ekkert hækkað af þeim sökum.  Raunverulegasta skýringin er að of lítill munur er á atvinnuleysisbótum og þeim launum sem fyrrum atvinnulausir eru að þiggja í nýjum störfum. Þetta er alvarleg staðreynd.

Styrkjum stoðir bæjarins með fjölbreyttum störfum

Við þurfum betur launuð störf – ekki láglaunastörf. Barátta okkar fyrir betur launuðum störfum heldur því áfram. Uppbygging hundruða starfa í Helguvík þar sem meðallaun verkafólks eru nær 600 þúsund kr. er enn áhersluverkefni okkar sjálfstæðismanna. Við styðjum fjölbreytni starfa í ferðaþjónustu, fiskvinnslu, samgöngum og gagnaverum um leið og við viljum styrkja atvinnugrunninn sem búinn hefur verið til í Helguvík. Við megum alls ekki sofna á verðinum við það að atvinnuleysi hafi minnkað.

Í Helguvík eru  nú í uppbyggingu tvö kísilver. Hið fyrra, United Silicon hafði fyrst áform uppi um stórfellda uppbyggingu strax við upphaf framkvæmda. Staðreyndin er sú að það byrjar með aðeins rétt um þriðjung þeirra framkvæmda og því þriðjung starfa, sem það áformaði og kynnti fyrir okkur í upphafi. Vonandi þroskast það fyrirtæki með árunum. Annað kísilver, Thorsil,  hefur uppi áform um stærri framkvæmdir og því vel launuð störf fyrir hundruð manna strax í fyrsta áfanga. Þannig má segja að þessi tvö kísilver byrji á svipuðum stað í stærð og fjölda starfsmanna og við áformuðum að fyrsta kísilverið myndi áorka, þegar það var upphaflega samþykkt.  

Framkvæmdir í Helguvík eru vel innan mengunarmarka

Eftirlitsstofnanir ríkisins, sem eiga að gæta að umhverfismálunum, hafa farið yfir alla þætti mengunar- og umhverfismála áður en leyfi eru gefin fyrir kísilverunum. Niðurstaða þeirra er skýr - að þau standist allar mengunarvarnir. Oftast eru eftirlitsstofnanir ríkisins sakaðar um að vera of kröfuharðar þegar kemur að mengunarvörnum. Þessar sömu stofnanir telja að jafnvel þó öll þau verkefni sem nú eru í undirbúningi yrðu að veruleika og af þeirri stærðargráðu sem þau geta stærst orðið til langrar framtíðar, séu sameiginleg áhrif þeirra allra,  vel innan allra mengunarmarka.

Samt rís upp hópur sem mótmælir framkvæmdunum og ber m.a. við mengunarástæðum. Hann hefur fengið fjórðung kosningabærra bæjarbúa til að skrifa undir að það eigi að kjósa um deiliskipulagið, eða í raun hvort fyrirtæki sem uppfyllir öll mengunarskilyrði og skilar hundruðum vel launaðra starfa, eigi að fá að starfa í Helguvík. Þeim sem beðnir voru að skrifa undir var  ýmist sagt að þetta snúist ekkert um að útvega betur launuð störf, menn séu ekki á móti því, heldur eigi fólk að hafa rétt til að segja sína skoðun í kosningum. Þá er sagt að eitt kísilver nægi, þótt enginn ræði um stærð þess! Fólki hefur einnig verið sagt að hestum stafi ógn af mengun – og eru þá að rugla saman flúor mengun álvera við kísilver þar sem ekki  er slík mengun.

Vinnum áfram að því að tryggja vel launuð  störf

Nú liggur fyrir að íbúakosning mun fara fram í nóvember um hvort ákvörðun um breytingu á deiliskipulagi í Helguvík hafi verið rétt. Ákvörðun sem tekin var fyrst með breytingu á aðalskipulagi 2006 og hefur verið unnið eftir allar götur síðan þá. Ákvörðun sem kynnt var á tugum íbúafunda og með yfirlýsingum m.a. fyrir sveitarstjórnarkosningar og ekki voru gerðar neinar athugsemdir við á þeim tíma, þegar þær áttu hugsanlega rétt á sér. Það er því mikilvægt að bæjarbúar segi nú skoðun sína – Viljum við betur launuð og örugg störf í bæinn okkar?. Störf sem fjölskyldur geta treyst á? Störf sem eftirlitsstofnanir ríkisins hafa metið að séu innan allra mengunarmarka. Viljum við láta tala bæinn okkar niður, gera lítið úr öllu því sem byggt hefur verið upp og undirbúið á síðustu árum ? Við sjálfstæðismenn tökum ekki þátt í því.

Árni Sigfússon, Magnea Guðmundsdóttir, Böðvar Jónsson og Baldur Guðmundsson, bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ.
 

Bílakjarninn
Bílakjarninn