Toyota ársgamlir bílar á tilboði
Toyota ársgamlir bílar á tilboði

Aðsent

Vetrarvertíðin er í fullum gangi
Mánudagur 15. apríl 2019 kl. 05:00

Vetrarvertíðin er í fullum gangi

Eins og síðasti pistill bar með sér þá var marsmánuður ansi erfiður fyrir minni bátana hérna á Suðurnesjum. Núna er kominn apríl og hann byrjar mjög vel. Það má segja að það hafi verið veðurblíða alla dagana sem af er apríl og hafa bátarnir geta komist nokkuð duglega á sjóinn. Fiskurinn hefur reyndar ekkert verið mikið á þeim buxunum að bíta á krókanna hjá línubátunum því eins og sjómenn segja þá er allt fullt af loðnu utan við Grindavík og sérstaklega utan við Sandgerði. Það þýðir að nægt æti er í sjónum og því bítur fiskurinn lítið á.
Ef við skoðum á línubátana þá er Páll Jónsson GK með 109 tonn, Sighvatur GK 104 tonn, Sturla GK 103 tonn, Hrafn GK 101 tonn, Jóhanna Gísladóttir GK 98 tonn, Fjölnir 84 tonn, Kristín GK 81 tonn og Valdimar GK 65 tonn, allir eftir eina löndun og allir að landa í Grindavík.

Af minni bátunum þá er Sandfell SU með 61 tonn í sex löndunum og mest 17 tonn. Auður Vésteins GK 54 tonn í sex, Gísli Súrsson GK 47 tonn í fimm, Óli á Stað GK 36 tonn í fjórum, Vésteinn GK 30 tonn í þremur, Kristján HF 29 tonn í fjórum, Indriði Kristins BA 26 tonn í fjórum, Háey II ÞH 24 tonn í fjórum, Daðey GK 23 tonn í fjórum, Sævík GK 38 tonn í fimm, Dúddi Gísla GK 28 tonn í fjórum, allir að landa í Grindavík. Dóri GK 17 tonn í fimm, Hafrafell SU 8 tonn í þremur, Steinunn HF 19 tonn í fjórum, Von GK 12 tonn í fimm, allir að landa í Sandgerði.

Handfærabátarnir hafa náð að komast út og hefur verið misjöfn veiði hjá þeim. Dímon GK er með 3,6 tonn í fjórum löndunum í Sandgerði. Þórdís GK 2,9 tonn í tveimur og Hrappur GK 2,9 tonn í tveimur í Grindavík. Stakasteinn GK 1,5 tonn en hann landar í Sandgerði.

Dragnótabátarnir og netabátarnir hafa aftur á móti fiskað vel núna í byrjun apríl. Siggi Bjarna GK sem er á dragnót er með 58 tonn í löndunum, Benni Sæm GK 53 tonn í fimm, Sigurfari GK 50 tonn í fimm og mest 28 tonn í veiðiferð, Aðalbjörg RE var með 36 tonn í fjórum löndunum.

Hjá netabátunum þá er Erling KE kominn í 99 tonn í sex löndunum, Grímsnes GK 47 tonn í sex. Maron GK 39 tonn í sex, Halldór Afi GK 15 tonn í fjórum, Hraunsvík GK 3,4 tonn í einni löndun en allir voru þessir að landa í Sandgerði. Þorsteinn ÞH var með 44 tonn í fimm löndunum í Njarðvík. Til Sandgerðis kom netabátur af stærri gerðinni því Saxhamar SH kom þangað eftir netaveiðar í Faxaflóa en Saxhamar SH er á því sem kallað er netarallið og er veiðisvæði Saxhamars SH í þessu ralli Faxaflóinn.

Vetrarvertíðin er í fullum gangi og einn angi af þessari vertíð má segja að sé grásleppuvertíðin. Hún hófst seinnipartinn í mars og þegar þetta er skrifað þá eru um 100 bátar komnir á grásleppuveiðar. Frá Suðurnesjum eru nokkrir bátar komnir á grásleppuveiðar. Í Grindavík er Tryllir GK með 2,2 tonn í tveimur róðrum og þar af 1,9 tonn af grásleppu, Bergvík GK er með 2,6 tonn í einni löndun og þar af 1,3 tonn af grásleppu. Reyndar hefur Bergvík GK fært sig til Sandgerðis. Í Sandgerði er Addi Afi GK kominn með 4,6 tonn í þremur róðrum og þar af 3,2 tonn af grásleppu, Guðrún Petrína GK með 4,4 tonn í tveimur og þar af 3,4 tonn af grásleppu, Tjúlla GK 2,3 tonn í einni löndun og þar af 1,8 tonn af grásleppu. Ekki er langt fyrir bátanna að fara til þess að leggja netin. Í Grindavík hafa Tryllir GK og Bergvík GK lagt netin í Hraunsvíkinni, sem er skammt undan Festarfjallinu. Í Sandgerði hafa bátarnir lagt netin svo til beint fyrir utan hafnarmynnið, utan við skerjagarðinn við höfnina. Sömuleiðis hafa bátarnir lagt netin meðfram ströndinni að Stafnesi. Þetta eru ansi mörg net sem bátarnir eru með. Til dæmis er Guðrún GK með 115 net í alls 19 trossum. Þetta gera um sex net í trossu. Til samanburðar eru þorskanetabátarnir með kannski þetta fjórar til fimm trossur og í hverri trossu er sex til níu net, svo þetta er ansi mikill munur. Áður fyrr voru hrognin úr grásleppunni skorin í burtu og sett í tunnu og tunnunni landað. Fiskinum sjálfum var hent. Í dag er grásleppunni landað heillri og eru reyndar ekki mörg fyrirtæki sem sjá um að verka grásleppu. Stór hluti af grásleppunni sem bátarnir af Suðurnesjum veiða fer upp á Akranes til vinnslu þar hjá fyrirtæki sem heitir Vignir Jónsson. Það fyrirtæki er dótturfyrirtæki HB Granda sem sameinaðist því fyrirtæki árið 2013.

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs