Aðsent

Verksmiðja í sátt við umhverfið
Föstudagur 21. janúar 2022 kl. 05:23

Verksmiðja í sátt við umhverfið

Ímyndum okkur framlag Reykjanesbæjar að vistvænni orku í heiminum væri að framleiða kísilmálm í Helguvík, sem verði síðan yrði notaður í sólarrafhlöður sem endast  áratugum saman og skapa vistvænt rafmagn út í heimi í stað rafmagns framleitt með kolum og olíu. Mikið væri það göfugt verkefni. Bæjarstjórn Reykjanesbæjar er á móti því. Not in my backyard!

Forseti bæjarstjórnar, Guðbrandur Einarsson, telur að „íbúar Reykjanesbæjar muni aldrei sættast á að rekstur kísilmálmverksmiðjunnar í Helguvík fari aftur í gang. Það skal aldrei verða,“ segir hann og er „vonsvikinn með álit Skipulagsstofnunar“ sem telur að neikvæð áhrif sem íbúar upplifðu megi rekja til þess hvernig staðið var að hönnun og rekstri verksmiðjunnar í upphafi. En Skipulagsstofnun telur – að því gefnu – að innleiðing endurbóta verði farsæl, að áhrif efna frá verksmiðjunni á heilsufar íbúa verði óveruleg, eins og raunin er um sambærilegar verksmiðjur í þröngum dölum Noregs. Hér togast á tilfinningaleg pólitík og skiljanleg reiði íbúa sem bæjarstjórn tekur vitaskuld undir, vegna þess hvernig staðið var að verki í upphafi annars vegar og svo ný og fagleg afstaða Skipulagsstofnunar hins vegar.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Með kísilkristöllum er sólargeislum breytt í raforku. Kísilmálmur er lykilefni til framleiðslu á sólarrafhlöðum, einum af framtíðarstólpum vistvænnar framleiðslu á rafmagni úr sólskini. Í Suður-Þýskalandi eru þök húsa oft þakin sólarrafhlöðum. Í Sahara rísa nú risavaxin sólarorkuver. Hreinsaður kísilmálmur er líka lykilefni í nútíma tölvutækni og rafeindaiðnaði. Kísilmálmverksmiðja er þannig mikilvæg í þágu grænnar orku og tækniframfara til framtíðar.

Orkuskortur hrjáir heiminn. Á Íslandi er næg vistvæn orka og hana þarf að auka um 50% ef við eigum að klára orkuskiptin hér á land nema „við barasta hættum að ferðast, hættum að aka bílum og barasta spörum rafmagn,“ eins og Landvernd leggur til. Slíkur málflutningur er auðvitað fráleitur. Við þurfum meiri orku. Heimurinn þarf meiri orku.

Kísilver eru orkufrekur iðnaður. Járnblendiverksmiðja Elkem á Grundartanga í Hvalfirði hefur verið starfrækt í fjóra áratugi, án þess að vera úthrópuð fyrir „kolabrennslu“ eða að eitra fyrir íbúa í Hvalfjarðarsveit eða valda mönnum hæsi. Þar er framleiddur kísilmálmur, (75% blandaður með 25% járni), til íblöndunar m.a. í rafmagnsstál fyrir spenna og rafmótora sem notaðir eru í rafmagnsbíla, hástyrktarstál fyrir vindmyllur, ryðfrítt stál fyrir farartæki o.fl. Ættum við að vera mótfallin þessu vegna þess að kol og trjákurl eru notuð við efnaferli framleiðslunnar? Meint eitrun í Hvalfirði hefur verið rannsökuð og skoðuð. Áhrifin óveruleg eða engin.

Tvö kísilver hafa verið reist á Íslandi. Annað á Bakka við Húsavík og hitt hér í Helguvík sem til stendur að endurbæta og keyra í gang að nýju en hróp andstöðunnar heyrast inn í bæjarstjórn. Fólk vill auðvitað ekki láta eitra fyrir sér og „vilji bæjaryfirvalda stendur til þess að verksmiðjan verði rifin,“ segir Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs, og bæjarstjórn virðist fljóta með um þröngsýna villigötu tilverunnar þar sem upphrópanir og hræðsla ríkir. Væri ekki nær að leysa vandann, vinna með lausninni, vinna hnattrænt, í stað þess „að berjast til síðasta blóðdropa“ gegn endurbótum? Maður bara spyr sig.

Skúli Thoroddsen.
Höfundur er íbúi í Reykjanesbæ.